Skyndilausnir líta ágætlega út á yfirborðinu og falla vel í kramið en duga sjaldnast þegar á reynir
Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hefur samþykkt tillögu að umsögn við 144. mál umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis er varðar breytingu á skipulagslögum. Sveitarfélagið leggst alfarið gegn því að skipulagsvaldið sé fært frá sveitarfélögunum með þeim hætti sem lagt er upp með og er í augljósri andstöðu við meginreglur skipulagslaga. Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga lýsir jafnframt yfir vonbrigðum með það að ráðast eigi í svo veigamiklar breytingar á lagaumhverfinu með skerðingu á sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga án þess að fram hafi farið vönduð og hlutlæg stjórnsýsluúttekt á málaflokknum, meðal annars á starfsemi Landsnets sem er hinn opinberi aðili sem Alþingi hefur falið það hlutverk að leiða uppbyggingu meginflutningskerfis raforku hér á landi.
Leggjast alfarið gegn því að skipulagsvaldið sé fært frá sveitarfélögunum
Umsögn bæjarráðs Sveitarfélagsnis Voga er eftirfarandi: Með frumvarpinu hyggjast stjórnvöld tryggja aukna skilvirkni í uppbyggingu flutningskerfis raforku hér á landi. Úr greinargerð með frumvarpinu má lesa að stjórnvöld hafi vaknað upp af vondum draumi í desember 2019 þegar aftakaveður gekk yfir Ísland með þeim afleiðingum að miklar truflanir urðu á flutnings- og dreifikerfi rafmagns. Í kjölfarið brást ríkisstjórnin við með skipan átakshóps um úrbætur í innviðum sem komst að þeirri niðurstöðu að ein helsta ástæðan fyrir því að hvorki hefði gengið né rekið í uppbyggingu raforkuinnviða hér á landi síðustu ár og áratugi væri of flókið ákvarðanatökuferli. Með frumvarpinu er ætlunin að bregðast við því með einföldun á skipulags- og leyfisveitingaferlum sem tengjast raflínuframkvæmdum. Eins og fram kemur í fyrri umsögn sveitarfélagsins, dags. 19. október 2022, leggst sveitarfélagið alfarið gegn því að skipulagsvaldið sé fært frá sveitarfélögunum með þeim hætti sem lagt er upp með og er í augljósri andstöðu við meginreglur skipulagslaga. Ný tillaga umhverfis- og samgöngunefndar hefur ekki breytt þeirri afstöðu.
Bæjarráð Sveitafélagsins Voga lýsir jafnframt yfir vonbrigðum með það að ráðast eigi í svo veigamiklar breytingar á lagaumhverfinu með skerðingu á sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga án þess að fram hafi farið vönduð og hlutlæg stjórnsýsluúttekt á málaflokknum, meðal annars á starfsemi Landsnets sem er hinn opinberi aðili sem Alþingi hefur falið það hlutverk að leiða uppbyggingu meginflutningskerfis raforku hér á landi. Verkefni sem flestir virðast sammála um hafi endað sem löng en árangurslítil hrakfallasaga. Í því samhengi er ástæða til að árétta að Landsnet fellur að mörgu leyti betur að skilgreiningu opinberrar stofnunar en fyrirtækis, stofnað með lögum til að sinna tilteknu málasviði, starfar samkvæmt sérleyfi og utan samkeppnismarkaða að uppbyggingu og rekstri innviða í almannaþágu. Að því leyti er ekki eðlismunur á starfsemi Landsnets og ýmissra opinberra stofnana.
Oftar en ekki er horft framhjá kjarna máls
Ef stjórnvöldum er alvara með því að vilja gera betur í uppbyggingu raforkukerfisins hér á landi og tryggja grundvöll orkuskipta, aukinnar verðmætasköpunnar og almennar hagsældar, þá er rökrétt að byrja á að skoða hlutina áður en ráðist er í breytingar, annars kunna þær að leiða til enn lakari árangurs. Eðlilegt fyrsta skref í kerfi sem byggir á vandaðri ákvarðanatöku væri að fela aðila sem telst óháður framkvæmdavaldinu, t.d. Ríkisendurskoðun, að gera ítarlega úttekt á umgjörð og framkvæmd uppbyggingar meginflutningskerfis raforku hér á landi. Í slíkri úttekt gæti til dæmis verið gagnlegt að kryfja til mergjar tiltekin veigamikil verkefni sem eiga sér langa og árangurslitla sögu, sbr. lagningu Suðurnesjalínu 2. Með því væri stuðlað að því að ákvarðanir um breytingar byggi á hlutlægum og málefnalegum forsendum, sem er einmitt eitt af einkennum vandaðrar og faglegrar stjórnsýslu. Að ætla að leysa málin í skyndingu á þeim forsendum að allt sé komið í þrot, er það á hinn bóginn ekki.
Vandinn við þá aðferðafræði felst nefnilega í því að oftar en ekki er horft framhjá kjarna máls og niðurstaðan verður gjarnan einhverskonar skyndilausn. Skyndilausnir eiga það oftast sameiginlegt að líta ágætlega út á yfirborðinu og falla vel í kramið en duga sjaldnast þegar á reynir, a.m.k. ekki í þeim tilgangi að leysa raunverulegan undirliggjandi vanda. Því miður ber frumvarp um breytingar á skipulagslögum merki slíkra vinnubragða, virkar vel á yfirborðinu og ber merki rösklegrar framgöngu en þegar betur er að gáð skortir talsvert uppá hlutlæga rannsókn á viðfangsefninu.
Umhverfis- og samgöngunefnd falli alfarið frá þessum hugmyndum
Er það mat bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga að fyrir utan hið augljósa, þ.e. að með breytingunum sé vegið að sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga, þá muni þær mögulega, þvert á yfirlýstan tilgang, leiða til aukinna tafa og flóknari stjórnsýslu og þar með enn lakari árangurs í uppbyggingu flutningskerfis raforku hér á landi.
Skorar bæjarráð á umhverfis- og samgöngunefnd að falla alfarið frá þessum hugmyndum og hefja þess í stað undirbúning að heildarúttekt á málaflokknum sem miðar að því greina raunverulegar orsakir þeirra tafa sem orðið hafa á uppbyggingu raforkuinnviða hér á landi.
Afgreiðsla bæjarráðs var samþykkt samhljóða.