Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skýlið horfið en ekkert gert
Miðvikudagur 28. júlí 2004 kl. 20:02

Skýlið horfið en ekkert gert

Mikillar óánægju gætir meðal nokkurra íbúa í Innri-Njarðvík sökum þess að rútuskýli eitt sem fjarlægt var hafi ekki verið sett upp á ný. Rútuskýlið sem áður var til staðar við gatnamót Njarðvíkurbrautar og Njarðvíkurvegar var fjarlægt sökum skemmda sem það hlaut eftir að ökumaður bifreiðar hafði keyrt á það. Skýlið hefur um árabil verið síðasta stoppistöð SBK í Reykjanesbæ áður en haldið er til Reykjavíkur.

Ragnar Þóroddsson, íbúi í Innri-Njarðvík, er ekki sáttur við gang mála og vill að nýju skýli verði komið fyrir á sama stað hið fyrsta.
 „Skýlið hafði staðið hér í mörg ár og varði okkur gegn veðri og vindum á meðan beðið var eftir rútunni. Ekkert hefur verið gert til þess að koma upp nýju skýli. Ef ekkert verður aðhafst í málinu næsta mánuðinn þá smíða ég bara mitt eigið skýli og set það upp þar sem hið gamla var,“ sagði Ragnar ákveðinn í samtali við Víkurfréttir.

Víkurfréttir höfðu samband við Einar Steinþórsson, framkvæmdastjóra SBK, sem sagði að óvíst væri hvort skýlið félli algerlega undir umsjá SBK;
 „Það má kannski segja að skýlið falli undir okkar umsjón, þessi mál hanga þó svolítið í lausu lofti. Það má einnig segja að skýlið falli undir vegagerðina en þetta er hluti af stærra máli sem landsamgöngurnar eru. Við hjá SBK höfum hvergi farið út í það að setja upp skýli og höfum heldur ekki bolmagn til þess,“ sagði Einar að lokum.

Hjá Þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar fengust þær upplýsingar að Reykjanesbær hefði séð um að fjarlægja umrætt skýli úr Innri- Njarðvík. Hins vegar stæði ekki til að setja upp nýtt skýli þar sem ekki væri um strætóleið að ræða.
Þess má þó geta að það voru bæjarfélögin sem settu upp gömlu biðskýlin á sínum tíma, í dag notast SBK við þessi skýli á ferðum sínum en hafa ekki umráð yfir þeim.

Það bendir sem sagt allt til þess að Ragnar Þóroddsson verði að spýta í lófana og smíða sitt eigið skýli til þess að fá skjól fyrir veðri og vindum á meðan hann og aðrir bíða eftir rútunni. Hvort skýli Ragnars fái að standa óáreitt er svo annað mál.

VF-mynd/ Jón Björn Ólafsson; Á myndinni er Ragnar Þóroddsson þar sem skýlið áður var.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024