Skylda að ýta undir atvinnuuppbyggingu
Fulltrúar B-, G- og S-lista í bæjarstjórn Grindavíkur hafa komið sér saman um samstarfssamning sem vinna á að út kjörtímabilið:
Fulltrúar B-, G- og S-lista eru sammála því að starfa af heiðarleika, jafnrétti og virðingu. Lögð er áhersla á að halda áfram þeim vinnubrögðum er verið hafa í bæjarstjórn síðustu tvö árin þar sem áhersla er lögð á að ræða mál af opnum hug og skoða allar mögulegar leiðir áður en bæjarfulltrúar gera upp hug sinn um hvaða leið skuli farin. Leitast skal við að hafa gott samstarf milli allra bæjarfulltrúa óháð flokki og tryggja að sjónarmið allra komi að borðinu áður en ákvörðun er tekin.
Grindavíkurbær er vel stætt bæjarfélag og á síðustu tveimur árum hefur bæjarstjórn leitað allra leiða til að tryggja að rekstrartekjur standi undir rekstrargjöldum. Stefnt er að því að jafnvægi í rekstri náist sem fyrst og að rekstur Grindavíkurbæjar verði í samræmi við nýjar fjármálareglur sveitarfélaga. Í ljósi atvinnuástandsins eru fulltrúar B-, G- og S-lista einnig sammála því að Grindavíkurbær beri þá skyldu að ýta undir atvinnuuppbyggingu, meðal annars með því að fara í nauðsynlegar framkvæmdir í bæjarfélaginu. Framkvæmdir mega þó aldrei vera það miklar að rekstur sé ekki í jafnvægi og stefnt skal að því að handbært fé bæjarins fari ekki undir einn milljarð króna. Samkomulag er um að halda áfram uppbyggingu á tónlistarskóla og bókasafni við Grunnskóla Grindavíkur. Einnig skal haldið áfram uppbyggingu á íþróttasvæðinu í samræmi við fyrirliggjandi tillögu. Hraði uppbyggingar skal ráðast af fjárhagsstöðu Grindavíkurbæjar sem og aðstæðum í atvinnulífinu. Að auki skal byggja upp aðstöðu fyrir salerni og veitingasölu við Hópið sem nýtist bæði stúkunni og Hópinu. Allar þessar framkvæmdir eru nú þegar á fjárhagsáætlun ársins 2012 eða á þriggja ára fjárhagsáætlun.
Fulltrúar B-, G- og S-lista eru sammála um að strax í haust verði þrjú mál sett í vinnslu í nefndum bæjarins. Í fyrsta lagi að bæjarráði verði falið að vinna jafnréttisáætlun fyrir Grindavíkurbæ. Í öðru lagi að fræðslunefnd og skipulagsnefnd- og umhverfisnefnd skoði möguleika á því að setja upp útikennslusvæði í samvinnu við alla skóla í Grindavík, sjávarútvegsfyrirtækin og fyrirtæki er nýta orkuauðlindir innan sveitarfélagsins. Náist samstaða um verkefnið verður leitað leiða til að koma því í framkvæmd á kjörtímabilinu. Í þriðja lagi að skipulags- og umhverfisnefnd verði falið annars vegar koma með tillögur að því hvernig Grindavíkurbær getur á einfaldan og fljótlegan hátt aukið umhverfisvitund og endurvinnslu innan stofnana bæjarins og hins vegar að skoða kosti og galla þess að Grindavíkurbær starfi í samræmi við Staðardagskrá 21.
Fulltrúar B-, G- og S-lista telja mikilvægt að bæjarstjórn haldi áfram að styðja við atvinnuuppbyggingu í bæjarfélaginu sem og að styðja við þau fyrirtæki sem nú þegar eru staðsett í Grindavík, svo sem í sjávarútvegi og ferðamannaiðnaði. Áfram skal stefnt að því að gera Grindavíkurbæ að eftirsóknarverðum stað bæði fyrir íbúa bæjarfélagsins sem og gesti, meðal annars með því að halda áfram uppbyggingu á göngustígum og fegrun bæjarins. Mikilvægt er einnig að styðja við þær skólastofnanir sem eru í Grindavík svo börn og ungmenni bæjarins fái góða menntun, en fyrirliggjandi eru metnaðarfullar umbótaáætlanir í skólastarfi bæjarins. Fulltrúar B-, G- og S-lista eru sammála því að mikilvægt sé að halda áfram uppbyggingu símenntunar í bænum í samstarfi við MSS og að aðstoða Fisktækniskóla Suðurnesja í Grindavík í baráttu þeirra við að fá úthlutað nemendaígildum á framhaldsskólastigi.