Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skútan „Söngur hvalanna“ í Keflavíkurhöfn
Fimmtudagur 8. júlí 2004 kl. 12:54

Skútan „Söngur hvalanna“ í Keflavíkurhöfn

Skúta Alþjóða dýraverndunarsjóðsins (IFAW) kom til Keflavíkur í morgun en skútan ber heitið „Söngur hvalanna“ og er hún 70 feta löng. Um borð í skútunni eru breskir og íslenskir vísindamenn og ætla þeir næstu vikurnar að rannsaka hvali við Íslandsstrendur.
Anna Moscrop er leiðangursstjóri verkefnisins og sagði hún í samtali við Víkurfréttir að strendurnar við Ísland væri kjörinn vettvangur til hvalarannsókna. „Við erum sérstaklega í hljóðrannsóknum og um borð í skútunni eru öflugir hljóðnemar sem taka upp hljóð hvalannak,“ segir Anna en leiðangurinn kemur við í höfnum kringum landið þar sem hvalaskoðun er í boði. „Við viljum sérstaklega styðja við bakið á hvalaskoðunarfyrirtækjum og þess vegna komum við hingað.“
Vélarrúm skútunnar er sérstaklega hljóðeinangrað og er vélbúnaðurinn hljóðlátur. „Skútan var sett á flot fyrir um mánuði síðan í Bretlandi og ferðin til Íslands er fyrsta ferð skútunnar,“ segir Anna.
Hinn heimskunni breski leikari Pierce Brosnan sem meðal annars hefur leikið njósnarann James Bond í samnefndum myndum, sjósetti skútuna í Bretlandi fyrir stuttu.
Að sögn Önnu heldur skútan áleiðis til Ólafsvíkur seinni partinn í dag og þaðan mun hún halda til Húsavíkur. Gert er ráð fyrir að skútan haldi til Bretlands fyrri hluta ágústmánaðar.

 

 

 

 

 

 

Myndirnar: Skúta Alþjóða dýraverndunarsjóðsins við Keflavíkurhöfn. Anna Moscrop leiðangursstjóri um borð í skútunni. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024