Fréttir

  • Skútan hafi brotnað í spón við Selatanga
  • Skútan hafi brotnað í spón við Selatanga
Fimmtudagur 27. október 2016 kl. 17:13

Skútan hafi brotnað í spón við Selatanga

- segir í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 26. október 2016, kl. 04:46, fóru að berast sendingar frá neyðarsendi sem var á Selatöngum, skammt austan Grindavíkur. Áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar fann sendinn og reyndist hann merktur skútunni Red Heol.

Skútunnar sem er frönsk hafði verið saknað síðan í júlí sl. en þann 7. júlí lagði hún úr höfn í Portúgal og var ferðinni heitið til Azoreyja og áætluð koma þangað þann 16. júlí. Einn franskur maður var í áhöfn. Skútan kom ekki fram á Azoreyjum á tilsettum tíma og var lögreglurannsókn hafin á hvarfi hennar í Frakklandi og maðurinn skráður týndur.

Ekkert hefur spurst til skútunnar nema hvað áhöfn á flutningaskipi sá til hennar þann 5. september sl. rúmlega 700 mílur austur af Nýfundnalandi en gat ekki nálgast hana vegna veðuraðstæðna. Engan var að sjá um borð í skútunni og segl hennar rifið.

Neyðarsendir verður virkur við að lenda í sjó og mál því ætla að skútan hafi brotnað í spón við Selatanga. Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík sendi leitarfólk á vettvang og fannst þar lítið eitt af braki og líkamshluti. Síðar um daginn fann björgunarsveitarfólk lík á svipuðum stað.

Lögreglan á Suðurnesjum óskaði aðstoðar kennslanefndar ríkislögreglustjórans við að bera kennsl á líkið. Unnið er að þeirri rannsókn. Ekki er unnt að staðfesta á þessari stundu hver hinn látni er þó sterkur grunur leiki á því að um franska sjómanninn sé að ræða.

Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um málið að svo komnu, segir í tilkynningu lögreglu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024