Skurðstofum HSS lokað 1. maí
Skurðstofum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Reykjanesbæ verður lokað þann 1. maí nk. samkvæmt uppsagnarbréfi til starfsmanna á skurðstofum. Átta starfsmenn vinna á skurðstofum HSS sem missa allir vinnuna samkvæmt heimildum Víkurfrétta. Fleiri starfsmenn HSS mega vænta uppsagnarbréfa því heimildir Víkurfrétta benda til að allt að 14 starfsmönnum ætti að segja upp til að ná markmiðum um þann niðurskurð sem stofnunin þarf að sýna.
Þeir sem til þekkja og Víkurfréttir hafa rætt við segja stöðu HSS mjög erfiða. Fjárveitingar til stofnunarinnar hafi verið mun lægri á hvern íbúa miðað við aðrar sambærilegar sjúkrastofnanir svo munar tugum þúsunda króna á hvern íbúa. HSS sé því löngu búin að skera niður alla fitu og kjötið sé farið af beinunum. Nú eigi að tálga beinin.
Suðurnesjamenn munu ekki taka þessum niðurskurði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þegjandi, því verið sé að færa þjónustuna áratugi aftur í tímann og vísa sjúklingum til Reykjavíkur.