Skúli íhugar að gefa kost á sér í forystusæti Samfylkingar í Suðurkjördæmi
„Það er rétt, ég er að skoða það með mínum félögum að gefa kost á mér í forystuhlutverk fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi,“ segir Skúli Thoroddsen, framkvæmdstjóri Starfsgreinasambands Íslands.
„Það eru miklar kröfur um breytingar í stjórnmálum og lýst er eftir fólki sem hefur þekkingu, reynslu og traust til að takast á við erfið verkefni framundan. Svo þykir mörgum að hlutur okkar Suðurnesjamanna og einkum Reykjanesbæinga sé heldur dapur þegar horft er á þingmenn kjördæmisins. Ég hef þann kost að búa í Reykjanesbæ, vera héðan ef svo má segja og hafa þekkingu á kjörum fólksins. Ég bý líka yfir mikilli reynslu úr atvinnulífinu og velferðarkerfinu almennt. Þessir þættir eru allir mikilvægir þegar leytað er eftir mönnum í framboð. Ég finn fyrir miklum stuðningi, ekki bara hér, heldur í öllu kjördæminu , einkum frá forystumönnum stéttarfélaganna. Ég tel líklegra en ekki að ég gefi kost á mér, en það verður ákveðið eftir helgi,"segir Skúli.
Skúli er menntaður lögfræðingur og lýðheilsufræðingur. Hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands frá árinu 2003, stærsta landssambands ASÍ, með um 55 þúsund félagsmenn um allt land. Hann var forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum í fimm ár við góðan orðstír og starfaði þar áður sem sérfræðingur hjá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að lýðheilsumálum í rúm tvö ár. Kona Skúla er Jórunn Tómasdóttir kennari í FS.