Skuldlaus og með sjávarútveg á heimsmælikvarða
- Langtímaskuldir bæjarins eru engar og fjárfestingargetan er mikil, segir Fannar Jónsson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.
„Sjávarútvegur er burðarstoð hér í atvinnulífinu. Við erum með gríðarlega öflug og flott sjávarútvegsfyrirtæki, ekki bara á landsvísu, heldur einnig á heimsvísu,“ segir Fannar Jónsson bæjarstjóri Grindavíkur en hann tók við þeirri stöðu fyrir einu og hálfu ári síðan og að hans sögn gengur bæjarfélaginu vel. Grindavíkurbær hefur staðið vel fjárhagslega undanfarin ár og er með eina bestu stöðu landsins fjárhagslega. Eftir þetta kjörtímabil er Grindavíkurbær að skila góðu búi og er rekstarafgangur hans samkvæmt ársreikningi síðasta árs rétt um tæpar þrjú hundruð milljónir. Langtímaskuldir bæjarins eru engar, fjárfestingargetan er mikil, þannig að hægt verður að gera marga góða hluti í framtíðinni án þess að taka lán, borga niður afborganir og greiða vexti.
Öflugt íþróttalíf í Grindavík
Í dag eru nokkrar stórar framkvæmdir í gangi í Grindavík og sú stærsta og fjárfrekasta er bygging á nýju íþróttahúsi en sú framkvæmd kostar meira en hálfan milljarð. Fannar segir að það sé góð aðstaða í Grindavík fyrir íþróttafólkið og að þar fari fram mikið og öflugt íþróttalíf, vel sé hlúð að og vel hugsað um unga fólkið. „Við eigum lið í meistaraflokkum karla og kvenna bæði í körfu og fótbolta sem er svolítið merkilegt fyrir ekki fjölmennara bæjarfélag og þetta bætir aðstöðu keppnisfólks okkar sem og alls almennings, bæði fyrir börn, unglinga og fullorðna. Þetta er stærsta eða fjárfrekasta verkefnið sem er í gangi núna í Grindavík en það er af mörgu að taka.“ Grindavík hefur verið, líkt og önnur nágrannafélög, vinsæll staður fyrir barnafjölskyldur og fólk sem vinnur í nágrenni við bæjarfélagið og þar af leiðandi hafa lóðir selst upp. „Það var ágætis lager, má segja af lóðum sem fóru hér í fyrra en það var mikil eftirspurn eftir lóðum í Grindavík og lóðir undir fjölbýli, parhús og raðhús voru ekki til. Núna er verið að vinna að því að bæta þar um betur og það er eitt hverfi hérna, sem hægt verður að úthluta núna í sumar og það er gert ráð fyrir að þar verði fjölbýli ásamt par-og raðhúsum, á annað hundrað íbúðaeiningar og það mun bæta úr þörfinni. Síðan er samkvæmt aðalskipulagi stórt svæði hér í Hópshverfi sem verður tekið síðar þannig að landið er til staðar ásamt skipulagi og síðan er reynt að vinna þetta og gera eftir þörfum en eftirspurnin er mikil.“
Frá framkvæmdum við íþróttamannvirki Grindavíkurbæjar
Suðurnesin blómstra og íbúum fjölgar
Þegar Fannar er spurður að því hvers vegna eftirspurnin eftir húsnæði í Grindavík sé svona mikil, þá segir hann að það eigi nú ekki aðeins við um Grindavík en öll Suðurnesin eru að blómstra núna að hans sögn. „Það er nú samt kannski óþarflega mikið sem Reykjanesbær hefur þurft að færast í fang vegna fólksfjölgunar, vegna þess að það þarf að fylgja þessu eftir með þessum margumtöluðu innviðum, það þarf að byggja skóla og leikskóla og það er í sjálfu sér ekki gott að íbúafjölgun í bæjarfélögum sé mjög mikil. Þetta getur þýtt það að þjónustu við íbúana sem fyrir eru sé ekki nægilega góð og ekki heldur þá fyrir þá sem eru að koma þannig að hófleg fjölgun er jákvæð og eftirsóknarverð en ekki endilega allt of mikil. Við teljum okkur ráða ágætlega við þá fjölgun sem líklegt er að verði næstu árin eða um 3%, helst ekki mikið meira.“
Leikskóli í náinni framtíð
Erfitt hefur reynst að koma börnum til dagmömmu og á leikskóla í Grindavík, líkt og í öðrum sveitarfélögum á landinu og segir Fannar að það sé búið að gera rækilega úttekt á líklegri þörf fyrir leik- og grunnskóla á næstu árum með tilliti til þeirra barna sem ná skólaaldri og að það séu áform um það að byggja í náinni framtíð. „Ég sé það á kosningaloforðum núna fyrir komandi kosningar og líka á umræðunni í bænum. Umræðan hefur líka verið þannig hjá bæjarráði og bæjarstjórn að það er hugað að því þegar þörf verður á.“
Tjaldstæði Grindavíkurbæjar
Ný blokk fyrir starfsmenn Bláa Lónsins
Bláa Lónið ákvað að kaupa blokk í Grindavík en í henni munu starfsmenn fyrirtækisins búa og verða þær tilbúnar í haust. „Ástandið er orðið þannig víðs vegar á landinu að íbúðarhúsnæði er ekki til staðar, það er ekki nóg að fá fólk til starfa þegar ekkert húsnæði er fyrir hendi. Bláa Lónið valdi þennan kost, þetta er gríðarlega öflugt og merkilegt fyrirtæki sem við erum afar stolt af sem er innan lögsögu Grindavíkur. Þeir völdu þennan kost að þegar það fór að spyrjast út að það ætti að fara að byggja blokk fyrir almennan markað ákváðu þeir að kaupa hana fyrir sína starfsmenn, þetta var þörf sem blasti við.“
Gistirýmum hefur fjölgað
Mikill fjöldi ferðamanna leggur leið sína til Grindavíkur allt árið um kring og hafa veitingastaðir og gististaðir sprottið uppí bæjarfélaginu. „Við erum með góða veitingastaði hér í Grindavík ásamt því að gistirýmum hefur fjölgað til þess að verða við þessari fjölgun eins og hægt er. Svo erum við með tjaldstæði sem er eitt það besta á landinu og gerist varla betra. Það er stöðug fjölgun þar og það er farið að huga að því að stækka það og erlendir sem innlendir ferðamenn geta komið sér vel fyrir á tjaldstæðinu okkar og nýtt aðstöðuna í þjónustuhúsinu sem er þar.“
Hefur áhyggjur af veiðigjöldum
Sjávarútvegur hefur verið burðarstólpi í gegnum aldirnar í Grindavík en á árum áður var landbúnaður einnig öflugur í þar en í dag fer minna fyrir honum og er sjávarútvegur burðarstoð atvinnulífsins í Grindavík. „Við erum með gríðarlega öflug og flott sjávarútvegsfyrirtæki, ekki bara á landsvísu, heldur einnig á heimsvísu. Vísir, annað tveggja stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna hér í Grindavík var að fá íslensku þekkingarverðlaunin um daginn og það eru mjög margir sem eru tilnefndir til þeirra verðlauna, í hinum ýmsu geirum en að það skuli vera sjávarútvegsfyrirtæki héðan úr Grindavík er auðvitað fagnaðarefni mikið og við erum afar stolt af þessu. Það sama á við um Þorbjörn, hitt stóra fyrirtækið hér í Grindavík sem og hin smærri, þetta er mjög öflugur sjávarútvegur og við vonum auðvitað að þeirra hagur verði sem mestur.“
Fannar hefur þó áhyggjur af veiðigjöldum en hann segir að það séu blikur á lofti vegna þeirra og hann vonar að það verði ekki kippt undan stoðum sjávarútvegsfyrirtækja eins og þeim sem starfa í Grindavík. „Það er næstum milljarður eða hátt í milljarður sem tvö stærstu fyrirtækin hér í Grindavík þurfa að borga á næsta ári, ekkert af þessu fer til sveitarfélagsins og fyrirtækin geta ekki staðið undir þessu og vonandi verður þetta lagað.“
Framkvæmdir í Miðgarði
Höfnin dýpkuð og hitaveita sett í bryggjuna
Í höfninni eru stórframkvæmdir, verið er að skipta um fjörtíu ára stálþil sem var orðið úr sér gengið, viðlegukanturinn er tvöhundruð og tuttugu metra langur en verið er að skipta honum út. „Nú er verið að nýta tækifærið og kanturinn verður færður aðeins utar og það sem skiptir ekki minna máli er að höfnin verður verulega dýpkuð. Rennan eða skipsfarvegurinn verður breikkaður þannig að það eru gríðarlega hafnarbætur í gangi og framundan, en það verður líka skipt um þekjuna á bryggjunni sjálfri.“
Til stendur að setja hitaveitu í þekjuna eða bryggjuna sjálfa, þannig verður hún íslaus að einhverju leyti og með tilkomu hitaveitunnar geta skipin hitað sig á vistvænan hátt og sparað. „Öll þessi aðgerð eru stórbætur á höfninni og nauðsynlegt fyrir þá öflugu starfsemi sem hér fer fram og okkar flota. Við erum með fjórtán skip hér í flotanum og fjöldann allan af minni bátum, þessi höfn er á flesta mælikvarða ein af stærstu höfnum landsins og við verðum að taka vel á móti okkar skipum og búa þeim góðan aðbúnað hérna og öðrum skipum sem landa hérna.“
Heimamenn leggja mikið upp úr litagleðinni í skrúðgöngunni
Sjóarinn síkáti haldin í tuttugasta og annað sinn í ár
Bæjarhátíðin Sjóarinn síkáti fer fram um sjómannahelgina eða nánar tiltekið 1.-3. júní en í sömu viku og hátíðin fer fram verður nóg um að vera. „Það er hins vegar upptaktur vikuna á undan en þá verða fyrirlestrar, myndlistasýningar, tónleikar og slíkt. Föstudagurinn er hátíð heimamanna en þá er bænum skipt upp í fjögur litaskipt hverfi og svo safnast fólkið saman í skrúðgöngunni í sínum lit og gengur af stað niður á bryggju. Á laugardeginum þá verður mikið lagt upp úr barnvænni dagskrá eða dagskrá fyrir alla aldurshópa. Á sunnudeginum er lögð áhersla á sjómennskuna og hefst dagskrá með hátíðarguðþjónustu og svo eftir hana er farið með blómsveig að minnisvarða um drukknaða sjómenn, Von. Síðan er glæsileg dagskrá alla helgina, skemmtisiglingar, Sterkasti maður heims, koddaslagur, veitingar og alls konar skemmtiatriði.“ Fannar segir að Grindvíkingar haldi því blákalt fram að Sjóarinn síkáti sé ein sú alskemmtilegasta og fjölbreyttasta bæjarhátíð á landinu en hún verður haldin í tuttugasta og annað sinn í ár. Dagskrá hátíðarinnar verður dreift í öll hús á Suðurnesjum og mun hún einnig verða aðgengileg á heimasíðu Grindavíkurbæjar.
„Ég hvet alla til þess að gerast gestir okkar og koma í heimsókn til okkar fyrir utan heimamenn sem alltaf taka kröftulega við sér á Sjóaranum síkáta.“
Eigum við ekki líka að vona að veðurguðirnir verði góðir við Grindvíkinga á Sjóaranum síkáta í ár?
„Jú, eigum við ekki að vona það en við erum með plan B ef illa fer og þá verður hægt að nota íþróttahúsið ef veðrið verður slæmt. En í íþróttahúsinu verður stórdansleikur á laugardagskvöldinu og það verða líka bryggjutónleikar það kvöld með frábæru tónlistarfólki og Grétar Örvars sér um að hafa einvalalið með sér.“