Skuldir Reykjaneshafnar 5 milljörðum hærri en eignir
-Rekstrartapið 400 milljónir króna 2015
Reykjaneshöfn tapaði 397 milljónum króna á árinu 2015 og skuldir hennar eru 5 milljörðum hærri en eignir. Höfnin er komin í mikla fjárþröng og ljóst að hún getur ekki staðið við skuldbindingar sínar að óbreyttu og er því óvissa um rekstarhæfi hennar að sögn endurskoðenda Deloitte en ársreikningur hafnarinnar var lagður fram í síðustu viku.
Fjárhagsáætlanir hafnarinnar næstu ára gera ekki ráð fyrir að höfnin geti staðið við skuldbindingar sínar á næsta ári án þess að til komi niðurfelling á skuldum hennar. Miðað við fjárhagsáætlun 2016 er fjárþörf hafnarinnar um 2,4 milljarðar króna. Formlegum viðræðum við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu og lækkun skulda var framhaldið eins og greint var frá eftir bæjarstjórnarfund 19. apríl sl.
Í áætlun ársins 2015 var gert ráð fyrir uppbyggingu tveggja kísilvera í Helguvík og auknum tekjum því samfara vegna lóðargjalda. Þetta gekk að hluta til eftir, uppbygging kísilvers Sameinaðs Silicon hf. er á áætlun en frestur er á uppbyggingu hjá Thorsil ehf. til ársins 2016. Sú frestun leiddi til þess að tekjuforsendur ársins breyttust verulega og var fjárhagsáætlun ársins aðlöguð að þeirri staðreynd á seinni hluta síðasta árs. Töluverð tekjuaukning varð þó í öðrum þáttum starfseminnar.
Uppbygging á iðnaðarsvæðinu í Helguvík mun leiða til tekjuaukningar fyrir Reykjaneshöfn á komandi árum. Hluti af þeirri uppbyggingu eru hafnarframkvæmdir í Helguvík til að mæta þeirri þjónustuþörf sem fyrirsjáanleg er með tilkomu kísilvera og annarra verkefna á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Til þess að hægt sé að halda uppbyggingu áfram í Helguvík er nauðsynlegt að ná fram skuldalækkun og endurskipulagningu fjármála en viðræður við kröfuhafa standa nú yfir. Verði neikvæð niðurstaða í viðræðum við kröfuhafa hafnarinnar mun það skapa óvissu um þá uppbyggingu.