Skuldaviðmið Voga komin niður fyrir 60%
Drög að ársreikningi bæjarsjóðs og stofnana Sveitarfélagsins Voga fyrir árið 2018 voru lögð fram til kynningar á fundi bæjarráðs Voga í síðustu viku. Vinna við gerð ársreiknings hefur staðið yfir undanfarnar vikur.
„Það er ánægjulegt að segja frá því að niðurstöður rekstrarreiknings ársins 2018 eru góðar, og resktrarafkoman umfram væntingar. Heildarskatttekjur ársins var liðlega 1,2 milljarður króna, en rekstrarafgangurinn tæpar 50 m.kr. Launakostnaður er sem fyrr stærsti eintaki kostnaðarliður í rekstri sveitarfélagsins, en laun og launatengd gjöld námu alls tæpum 690 m.kr. á árinu. Efnahagsreikningurinn ber þess merki að fjárhagur sveitarsjóðs telst vera „heilbrigður“, en langtímaskuldir sveitarsjóðs hafa farið lækkandi undanfarin ár,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum í pistli sem hann skrifar.
Samkvæmt lykiltöluyfirliti ársreikningsins er skuldaviðmið skv. reglugerð nú komið niður fyrir 60%, sem telst vera mjög viðunandi. Leyfilegt hámark er 150% af reglubundnum tekjum sveitarsjóðs.
Ársreikningurinn verður tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn á næsta bæjarstjórnarfundi, sem verður miðvikudaginn 27. mars nk., og birtur á vef sveitarfélagsins í kjölfarið. Síðari umræða um reikninginn verður á aprílfundi bæjarstjórnar, sem er fyrirhugaður miðvikudaginn 24. apríl nk.