Skuldaviðmið Sandgerðisbæjar úr 310% í 161% á sex árum
- Áætla að ná viðmiðum sveitarstjórnarlaga árið 2019
Bæjarstjórn Sandgerðis samþykkti ársreikning sveitarfélagsins fyrir síðasta ár samhljóða á fundi sínum 2. maí síðastliðinn. Í fundargerð segir að í lok síðasta árs hafi skuldaviðmið Sandgerðisbæjar verið 161% og rekstrarniðurstaða neikvæð um 5,6 milljónir króna. Í árslok árið 2011 var skuldaviðmið 310% og rekstrarniðurstaðan neikvæð um 447 milljónir króna. Áætlað er að viðmiðum sveitarsjórnarlaga um skuldaviðmið og rekstrarjafnvægi verði náð árið 2019 sem er nokkru fyrr en langtímaáætlun frá árinu 2012 gerði ráð fyrir.
Í fundargerð segir jafnframt að fyrir sex árum hafi bæjarstjórnin mótað sameiginlega stefnu um að vinna markvisst að því að lækka skuldir bæjarfélagsins, ná jafnvægi í rekstri og veita íbúum á sama tíma góða þjónustu. Með aðhaldi í rekstri og virkri fjármálastjórn auk ýmissa hagstæðra ytri þátta hafi góður árangur náðst.