Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skuldahreinsun og ódýrari sorpbrennsla fyrir Suðurnesjamenn
Föstudagur 2. mars 2012 kl. 14:59

Skuldahreinsun og ódýrari sorpbrennsla fyrir Suðurnesjamenn

- Askan sem verður til eftir brennslu hrannast upp. Hefur ekki verið urðuð frá stofnun Kölku. Gæti þó endað í malbiksgerð á Íslandi sem væri frábær kostur.



„Ég held að fulltrúar sveitarfélaganna sem eiga Kölku hljóti að þurfa að skoða þetta tilboð í sorpeyðingarstöðina vandlega. Stöðin er rétt rúmlega hálfnýtt en á henni hvíla miklar skuldir. Fari svo að við seljum stöðina munum við þó setja skilyrði fyrir því að gerður verði langtíma samningur um sorpbrennslu fyrir Suðurnesin á lægra verði en í dag. Sorpgjaldið okkar er með því hæsta sem gerist hér á landi,“ segir Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um málefni Kölku eftir að tilboð barst í stöðina frá bandarísku fyrirtæki.


Tilboð Trimvirate um kaup á Kölku hljóðar upp á 10 millj. dollara eða um 1250 milljónir króna. Það er nálægt heildarskuldum Kölku í dag. Eftir brotthvarf Varnarliðsins sem nýtti stöðina til brennslu á öllum úrgangi og sorpi frá starfsemi sinni, er stöðin rétt rúmlega hálfnýtt. Nú eru brennd um 7 þús. tonn á ári en stöðin ræður við 12-13 þús. tonn. Stærsti kúnninn, Kaninn, fór árið 2006 og síðan hefur hagur Kölku legið niður á við því búið var að byggja fullkomnustu sorpbrennslustöð á Íslandi fyrir mikla peninga. Hún uppfyllir allar kröfur Evrópusambandsins um staðla sem fylgja svona starfsemi.


Böðvar segir að ekki hafi verið í umræðunni að brenna hættulegra sorp en verið sé að gera nú þegar, m.a. sjúkrahússorp. Áhugi Bandaríkjamanna stafi af mjög stífum reglum í þeirra heimalandi en þeir kaupa nú m.a. brennslu í Danmörku og í fleiri löndum. Sorpbrennslustöðvar sem nú þegar eru með starfsemi í Bandaríkjunum selji þjónustu sína svo dýrt að fyrirtæki sjái fram á að ódýrara sé að flytja sorpið til landa sem geta brennt það á ódýrari hátt.


Vandamál sem hefur sprottið upp í orðsins fyllstu merkingu auk skuldavandamála, er frágangur eða urðun á öskunni sem verður eftir þegar sorpið er brennt í Kölku í Helguvík. Þegar Kalka hóf starfsemi stóð til að urða öskuna m.a. á Stafnesi en þegar kom að því kom babb í bátinn og enn stendur hnífurinn í kúnni varðandi þetta mál. Þannig hefur á sjö árum eða frá opnun Kölku, öskufjall hlaðist upp. Askan úr Kölku er geymd í gámum á nokkrum stöðum á Suðurnesjum, í Sandgerði, Garði og m.a. í gömlu sorpeyðingarstöðinni við Hafnaveg. Ekki hefur fundist lausn á því hvernig Kalka getur losað sig við úrganginn, öskuna. Er m.a. verið að skoða það alvarlega að sigla henni til Danmerkur þar sem hægt er að urða hana. Einnig er verið að rannsaka það í gegnum nýstofnað atvinnuþróunarfélag á Suðurnesjum, Hekluna, hvort hægt sé að nýta öskuna í malbiksgerð á Íslandi. Binda menn vonir við að slík lausn gæti verið góð í alla staði. Þannig væri sorp úr Kölku endurnýtt í orðsins fyllstu merkingu á mjög umhverfisvænan hátt og endaði í gatnagerð á Íslandi.


Gangi það eftir að koma öskunni í malbik og Kalka seld sem gæti þýtt ódýrari sorpbrennslu fyrir Suðurnesjamenn og skuldahreinsun væri verið að slá tvær flugur í einu höggi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024