Skuldahlutfall lækkað um tæpan helming
– á fjórum árum hjá Reykjanesbæ
	Skuldaviðmið Reykjanesbæjar, sem mælir heildarskuldir á móti tekjum, hefur lækkað úr 445% árið 2009 þegar það var hæst í efnahagskreppunni niður í 248,5% á síðasta ári. Stefnt er að því að það nái undir 150% árið 2019, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ.
	Þar segir jafnframt að skuldaviðmið bæjarsjóðs var hæst í efnahagskreppunni árið 2009, þegar það nam 396,5% en hefur lækkað niður í 235,1% á árinu 2013. Eins og í samstæðureikningi er stefnt á að það fari vel undir 150% árið 2019. Þetta kemur fram í 10 ára áætlun um lækkun skulda hjá Reykjanesbæ. 
	„Við höfum markvisst unnið að því að lækka þetta skuldaviðmið í takt við viðmið sem sveitarfélögunum eru sett. Þrátt fyrir að sinna áfram fjárfestingu í innviðum hefur tekist að lækka þetta skuldahlutfall. Við gerum m.a. ráð fyrir að þurfa að bæta við einum grunnskóla og tveimur leikskólum á næstu fimm árum en fara samt niður fyrir 150% hlutfallið eftir 5-6 ár,“ segir Þórey Guðmundsdóttir fjármálastjóri Reykjanesbæjar í tilkynningu bæjarins. 


	Skuldir Reykjanesbæjar, sem hlutfall af tekjum, hafa lengi verið mjög háar. Þannig var þetta hlutfall árið 2002 um 270% en er nú 248,5% eftir mjög erfið ár og mögnun skulda í gengishækkunum efnahagshrunsins.
				
	
				

 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				