Skuggarnir horfnir
Reyknesbæingar hafa margir hverjir kvartað yfir því að ná ekki skýrri mynd í sjónvarpinu. Haft var samband við yfirmenn dreifikerfa RÚV og Íslenska útvarpsfélagisins sem sögðu að þessar truflanir stöfuðu af „skuggum“. Bætt hefur verið úr þessu tæknilega vandamáli með nýjum sendum og litlu, skrítnu skuggarnir eru því horfnir.Nýr sjónvarpsendurvarpi Ríkisútvarpsins hefur verið settur upp við símstöðina í Keflavík. Endurvarpinn ætti að bæta úr helstu umkvörtunarefnum varðandi sjónvarpsdreifingu Ríkisútvarpsins á Keflavíkursvæðinu. „Engu að síður þarf að kanna skilyrði og aðstæður á hverjum stað, sérstaklega þegar fjær dregur, hvaða sendir hentar best“, segir Kristján Benediktsson verkfræðingur dreifikerfis RÚV. Þær upplýsingar fengust hjá Íslenska útvarpsfélaginu að örbylgja hefði verið sett upp á Þorbjörn og þaðan send í TAL mastrið í Keflavík þar sem vandaður og dýr sendir var settur upp. Á örbylgjunni á að nást nánast allt efni frá Íslenska útvarpsfélaginu og RÚV.