Skrúfan af Cap Fagnet komin á þurrt
Seinni partinn í gær lagði Björgunarsveitin Þorbjörn upp í leiðangur austur í Hraunsvík en tilgangurinn var að sækja skrúfuna af Cap Fagnet sem strandaði í Hraunsfjöru árið 1931 þar sem fluglínutæki voru notuð fyrst hér á landi til að bjarga mannslífum. Fyrir nokkrum dögum fóru félagar sveitarinnar og sóttu ankeri sem fundust á svipuðum stað en skrúfan þótti of stór og þurfti að undirbúa þá aðgerð betur, enda sat hún gróin við botninn ásamt öxlinum og fóðringum. Þetta kemur fram á vef Grindavíkurbæjar.
Síðasta sunnudag var farin fyrsta ferð að skrúfunni en þá var hún losuð af hafsbotninum með vörubílatjökkum og gekk það betur en menn þorðu að vona.
Eftir að ljóst var að skrúfan væri laus frá botninum þurfti að huga að því hvernig ætti að ná henni upp svo hægt væri að draga hana á haf út. Eftir nokkra daga undirbúning var lagt af stað klukkan 16 í gær á tveimur bátum sveitarinnar ásamt björgunarskipinu Oddi V. Gíslasyni. Til þess að ná skrúfunni af hafsbotni var notaður rúmlega 6 þúsund lítra tankur sem var dreginn í Hraunsvík af Oddi V. Um 4 klukkustundir tók svo að lyfta skrúfinni upp og koma henni til Grindavíkur þar sem að stór kranabíll beið á bryggjunni til þess að hífa hana upp.
Skrúfan og öxullinn sem henni fylgir eru talin vera rúmlega 4 tonn að þyngd og því ekki um neina smásmíði að ræða. Skrúfan er mikið löskuð, líklegast eftir að hafa skollið í klappirnar í fjörunni þegar að skipið strandaði. Til stendur að þrífa hana og mun hún í framtíðinni standa fyrir framan björgunarsveitarhúsið líkt og nokkrar aðra minjar sem þangað eru nú komnar. Skrúfan stendur nú á bílastæði við björgunarsveitarhúsið ef einhverjir áhugasamir hafa áhuga á að skoða hana.
Alls tóku um 20 félagar í björgunarsveitinni Þorbirni þátt í aðgerðinni. Með þessu vill björgunarsveitin Þorbjörn minnast 80 ára sögu sjóbjörgunar í Grindavík.
Mynd: Björgunarsveitin Þorbjörn.