Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skrifað undir samning sæstrengs sem kemur á land í Grindavík
Mánudagur 12. ágúst 2013 kl. 09:04

Skrifað undir samning sæstrengs sem kemur á land í Grindavík

Vodafone skrifaði fyrir helgi undir samning við bandaríska fyrirtækið Emerald Networks um lagningu nýs sæstrengs til landsins. Þetta er í fyrsta skiptið í áratug sem nýr sæstrengur er lagður á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Sæstrengurinn kemur á land í Grindavík, nánar tiltekið við Sandvík og Mölvík, en vegna tengingarinnar mun Emerald Networks byggja upp öflugt ljósleiðarakerfi á Reykjanesi. Gert er ráð fyrir að strengurinn verði tekinn í gagnið seint á næsta ári.

Með sæstrengnum fjórfaldast hraðinn og flutningsgetan. Í tilkynningu segir að íslenskir notendur séu kröfuharðir og þeir vilji meiri hraða og afköst. Stefnt er að því að strengurinn verði tekinn í gagnið að ári liðnu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum ákaflega ánægð með þennan samning og ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem hafa unnið að samningagerðinni um langa hríð fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf," segir Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone í tilkynningu.

Um sæstrenginn:

Emerald Express sæstrengurinn verður afkastamesta og hraðasta gagnaflutningstengingin á milli Norður-Ameríku og Evrópu og mun hann jafnframt tengjast við Ísland. Strengurinn byggir á nýrri tækni sem auðveldar uppfærslur á afkastagetu hans síðar. Heildarlengd strengsins er yfir 6.700 km og þar af er leggurinn sem lagður verður til Íslands um 1.300 km. Sæstrengurinn mun koma á land í nágrenni við Grindavík. Emerald Networks hefur samið við bandaríska fyrirtækið TE SubCom um að leggja strenginn. Félagið hefur mikla reynslu af lagningu sæstrengja og hefur þegar lagt um 490 þúsund kílómetra af neðarsjávarköplum sem jafngildir tólf sinnum ummáli jarðarinnar við miðbaug. Íslenska fjárfestingafélagið Thule Investments sér um fjármögnun strengsins á Íslandi.