Skrautleg fiðrildi á sveimi
Íbúar í Reykjanesbæ hafa orðið varir við skautleg fiðrildi á sveimi um bæinn undanfarið og hafa sent okkur myndir af þeim. Aðra myndina fengum við senda frá íbúa á Norðurvöllum í Reykjanesbæ og hina frá Sæþóri Berg Ásgeirssyni sem ásamt félaga sínum Benjamín Heimissyni fann slíkt fiðrildi í Innri-Njarðvík.
Í báðum tilfellum er um svokallað Aðmírálsfiðrildi að ræða en náttúruleg heimkynni þeirra er í Suður-Evrópu, Norður-Afríku, á Mið-Atlantshafseyjum og í Norður-Ameríku. Þau geta tímgast á Bretlandseyjum og myndað sumarkynslóð, en lifa ekki af veturinn. Á Íslandi eru aðmírálsfiðrildi aðeins flækingar, fjölga sér ekki og lifa að sjálfsögðu veturinn ekki af, frekar en annars staðar í N-Evrópu. Hér getur því ekki myndast stofn.
Árlega berast til landsins erlend fiðrildi af ýmsu tagi. Slíkt á sér einkum stað á haustin þegar hlýir loftmassar berast yfir landið frá Evrópulöndum í suðaustri. Stundum er fjöldi fiðrildanna umtalsverður en þó eru mikil áraskipti af því. Ræðst það bæði af afkomu fiðrildanna á heimaslóðum þeirra það árið og hvernig háttar til með haustlægðirnar.
Það að Aðmíráll skuli finnast í sitthvorum enda bæjarins gæti bent til til þess að sveimur af þeim hafi borist hingað með suðlægum vindum.