Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skortir samstöðu á meðal Suðurnesjamanna
Laugardagur 14. febrúar 2009 kl. 17:43

Skortir samstöðu á meðal Suðurnesjamanna

- segir Friðjón Einarsson sem stýrði MOA í síðustu kreppu


Friðjón Einarsson þekkja margir Suðurnesjamenn. Hann stóð í fremstu víglínu hér á Suðurnesjum í síðustu kreppu þegar hann fór fyrir MOA, markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar. Síðustu þrjú ár hefur hann svo kynnst íslensku útrásinni en Friðjón er starfsmaður Kaupþing Bank Lúxemburg í Luxembourg. Hann er yfirmaður markaðs- og kynningarmála hjá Kaupþing Bank Luxemburg. Bankinn starfar um alla Evrópu með um 280 starfsmenn. Friðjón hefur verið hér heima síðustu vikur en Víkurfréttir settust niður með honum nú í liðinni viku og fengu sjónarhorn hans á kreppuna nú og hvað dugði best í síðustu kreppu á tíunda áratug síðustu aldar.

Í síðustu kreppu á Suðurnesjum í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar var atvinnuleysi kvenna komið í um 12% og karla í um 7%. Atvinnuleysið varð í kjölfar mikils samdráttar hjá Varnarliðinu, sem á þessum tíma skar mikið niður framkvæmdir. Á þessum tíma voru atvinnutækifærin færri á Suðurnesjum en í dag.

Ekki samstíga

„Það sem vekur athygli mína í samanburðinum á kreppunni nú og þá, er að öll sveitarfélögin á Suðurnesjum stóðu saman. Nú virkar þetta þannig að menn séu ekki samstíga. Þegar menn stofnuðu markaðsskrifstofuna, MOA, var það samþykkt af öllum flokkum í bæjarstjórn hjá Reykjanesbæ. Síðan var það hlutverk MOA að vinna með hinum sveitarfélögunum og það komu aldrei upp vandræði í því samstarfi. Ég sakna þess tíma að menn vinni meira saman, því styrkur okkar er því þeim um meiri,“ segir Friðjón í samtali við blaðamann.

Friðjón bendir á að nú tali fólk mikið um ferðaþjónustuna sem atvinnusköpun í kreppunni. Í síðustu kreppu varð til stöðuheiti eins og ferðamálafulltrúi Suðurnesja, sem ekki hefur verið til núna í mörg ár. Friðjóni finnst ferðaþjónustu á Suðurnesjum hafa hrakað mjög. Hann bendir á að á sínum tíma hafi verið þrjú fyrirtæki í hvalaskoðun og sjóstangaveiði, en segja má að sú  þjónusta heyri sögunni til á Suðurnesjum í dag. Tjaldstæðið í Reykjanesbæ var á sínum tíma rekið niðri í miðjum bæ og boðið upp á ókeypis rútuferðir úr flugstöðinni og í hjarta bæjarins. Upplýsingamiðstöðin í flugstöðinni var undir yfirráðum heimamanna sem gátu stýrt umferðinni niður í bæ sem því miður er ekki lengur til staðar.

„Það sem við horfðum á gerast í atvinnuleysi á tímabilinu 1990 til 1996 er að hér varð til mikill fjöldi öryrkja, sem er ein af afleiðingum langtímaatvinnuleysis. Fjöldi öryrkja hefur oftast minnst með veikindi að gera, heldur voru þeir sem höfðu verið atvinnulausir árum saman settir á örorkubætur. Þetta varð samfélaginu hér á Suðurnesjum mjög dýrt. Við sjáum þetta best í aukinni örorku hjá lífeyrissjóðnum og hér á Suðurnesjum hefur þetta verið stórt vandamál og með því mesta sem gerist á íslandi.

Það sem við lærðum á þessu atvinnuleysi á sínum tíma þar sem atvinnuleysi fór úr 10-11% niður í 1% á skömmum tíma, var að atvinnulausir mega ekki vera í friði heldur þarf að fara í gang öflug starfsemi þar sem atvinnulausum er gefinn kostur á að sækja námskeið, öfluga dagskrá og einhver markviss þátttaka í atvinnulífinu sem byggir á áhugasviði þeirra einstaklinga sem eru atvinnulausir.

Langtímaatvinnuleysi erfitt

Hvaða virkaði best á atvinnuleysið á þessum tíma?
„Það voru búnir til mjög margir vinnuhópar með atvinnulausum, sem bæði unnu ýmis störf og einnig að áhugamálumsínum. Göngustígar á Suðurnesjum voru margir hverjir  lagðir á þessum tíma. Fjölmörg verkefni á vegum Byggðasafns Suðurnesja og Byggðastofnunar voru unnin með þátttöku atvinnulausra. Það var í raun allt gert til að halda mönnum gangandi og leyfa þeim ekki að sitja heima. Menn voru skyldaðir í sundlaugina og til að mæta reglulega á einhvern stað. Þegar fólk hefur verið atvinnulaust í 6-8 mánuði þá getur verið erfitt að koma því af stað aftur og kostnaður samfélagsins er hræðilega dýr“.

Friðjón talar um að Virkjun mannauðs sem sett hefur verið upp á Vallarheiði sé mjög gott framtak. Hann segir mikilvægt að allar stofnanir samfélagsins komi að svona verkefni. Svona verkefni snúist ekki um húsnæðið sem slíkt, heldur það andrúmsloft sem verið er að skapa.

„Það er skortur á samstarfi á Suðurnesjum. Mér finnst vanta að menn standi betur saman. Ef ekki núna, þá aldrei. Ég er klár á því að fyrir stofnun eins og t.a.m. lífeyrissjóði og stéttarfélög og ríkið, þá er það versta sem getur komið fyrir er langtíma atvinnuleysi. Það vantar líka meiri formlegheit eða stofnun til að sinna atvinnulífinu betur. Við höfum ekki atvinnumálaráðgjafa í dag eða aðstöðu fyrir fólk að sækja sér upplýsingar eða þekkingu á einum stað. Ég veit ekki hvert fólk á að fara til að sækja aðstoð eða þekkingu. Á það að fara til Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum eða til hafnarinnar?

Ég sá það reyndar í blöðunum að það hafi verið að stofna markaðsstofu ferðamála á Suðurnesjum. Mér finnst það ánægjuleg breyting að Ferðamálasamtök Suðurnesja hafi snúist 180 gráður, því það voru samtökin sjálf sem lokuðu á samstarfið við Reykjanesbæ og sveitarfélögin á sínum tíma, þannig að ég er ánægður að sjá þá vakna aftur til lífsins og ekki veitir af. Maður hefur varla vitað af Ferðamálasamtökum Suðurnesja í mörg ár, nema einhverjum gönguferðum“.



Týndum okkur

Hvað hefur valdið því að allir þessir þættir hafa lognast útaf, ef svo má segja?
„Ég held að það sé góðærið. Græðgin býr allsstaðar innra með okkur flestum. Við týndum okkur. Ég held einnig að þetta sé einhverskonar stórmennska hjá flestum, ekki síst  hjá sveitarfélögunum sjálfum á Suðurnesjum. Suðurnesjamenn eru um 20.000 talsins og hér virðist vonlaust að vinna saman að heilindum,  sjáum t.d örlög Hitaveitu Suðurnejsa og Suðurlindir. Kannski sést þetta best í stjórnmálabaráttu, þar sem Suðurnesjamenn styðja sjaldnast heimamenn til valda. Við erum sterkari saman en sundur.   Ég á von á því að menn hljóti að fara taka höndum saman og reyna að finna betri lausnir en við höfum gert og setji gamlar syndir til hliðar þetta á við um unga sem aldna.

Mér finnst líka vera byrjað á mörgu en fáu lokið. Menn rjúka af stað eins og t.d. í  skólamálum og áður en maður veit af er fjöldinn allur af stofnunum sem sum hver eru að sinna sömu málunum, kannski vantar heildstæðastefnu í skóla og íþróttamálum. Ég held að það sé hægt að hagræða verulega í þessum málum og gera betur fyrir minna fé. Ég held að sá aðili sem unnið hefur hvað mest gagn í atvinnuleysi á Suðurnesjum sé Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Ég vona að þau komi sterk inn að þessu sinni.

Þegar ég horfi til Vinnumálastofnunar, þá var hún skorin niður í góðærinu. Þeir eru í dag í mjög litlu húsnæði sem býður ekki upp á neina möguleika fyrir þá að sinna atvinnulausum. Það er kannski þess vegna sem bæjarfélagið sýndi þann kraft sem þurfti til að opna Virkjun, en auðvitað á þetta meira að tilheyra Vinnumálastofnun.

Það er ekki hægt að setja fólk í biðraðir enn á ný eins og gert var fyrir 20 árum sá tími er liðinn, við eigum að bera virðingu fyrir fólki og bregðast hratt við þar sem þörf er á.
Það var styrkur okkar hér áður þegar við vorum reynslusveitarfélag í atvinnumálum að hafa alla þessa þátttakendur í sama rými, Vinnumálastofnun, atvinnumálin og ferðamálin inni á sömu stofnun. Mig minnir að þegar mest var hafi 15 manns verið vinnandi í þessum verkefnum á árunum 1997-98“. Þannig er hægt að samræma aðgerðir á öllum sviðum og nýta þann kraft og þekkingu sem er til staðar með betra móti.

Völlurinn einstakur

Hvernig líst þér á uppbygginguna í gömlu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli?
„Mér líst frábærlega á það sem þar er að gerast. Hver hefði trúað því fyrir þremur árum síðan að þetta samfélag sem er orðið uppi á velli yrði til. Mér finnst þetta alveg einstakt. Reyndar er ég aðeins hræddur við kostnaðarhliðina á þessu en allt sem ég hef séð er alveg einstakt og ég hefði aldrei trúað þessu. Sá sem hefði spáð þessu fyrir þremur árum hefði á þeim tíma verið talinn galinn“.

Ekki hægt að bjarga bönkunum


Friðjón er starfandi hjá Kaupþingi í Lúxemburg, sem er sjálfstæð eining og banki sem sem nú er í greiðslustöðvun og sölumeðferð. Bankinn hefur verið starfandi í 10 ár en lokaði þegar Kaupþing í London var yfirtekinn. Á annan tug Íslendinga starfa hjá bankanum í Lúxemburg sem telur í heild um 200 starfsmenn, en nú er unnið að sölu bankans.  

Friðjón sagðist vel verða var við bankakreppuna í Lúx, þar fóru allir stærstu bankarnir á hliðina. „Þeir aftur á móti höfðu sterkari seðlabanka sem gat bjargað þeim. Ég er viss um að við hefðu verið í sterkari stöðu sem þjóð ef við hefðum verið innan vébanda Evrópu sambandsins.

Það er sorglegt sem hefur gerst, vera starfandi í þessum bankaheimi. Þetta er séríslenskt fyrirbæri - við hlaupum of hratt, eyðum of hratt og hugsum dálítið á eftir. Eiginleiki Íslendinga er þannig að við keyrum allt í botn og förum út á ystu nöf í fjárfestingum og skiptir þá engu hvort við erum að tala um einstaklinga eða fyrirtæki, hér heima eða erlendis. Þrátt fyrir að vanskil hjá íslenskum lánastofnunum hafi verið í algjöru lágmarki fyrir ári síðan“.  

Koma krónunni fyrst á strik


Gæti Evran eða Evrópusambandið breytt einhverju fyrir okkur í dag?
„Ég held að við þurfum að koma okkur fyrst á strik með krónuna áður en við tölum um Evruna.

Ég er hræddastur um sjávarútveginn og einnig að tilheyra stóru veldi eins og Evrópusambandinu. Það er þó klárlega styrkur að vera inni í Evrópusambandinu og mörg lönd í Evrópu segja að þau væru löngu farin á hausinn og ver en Íslendingar ef þau hefðu ekki verið inni í Evrópusambandinu, eins og til dæmis Belgía“.

Talandi um bankahrunið þá segist Friðjóni finnast sorglegast sú reiði sem er á Íslandi og þá sérstaklega reiði gegn persónum. Hann segist finna það mikið og hafi m.a. sjálfur lent aðeins í slíkum málum. Hann segir fólk þurfa að passa reiðina og frekar að horfa fram á veginn.

Friðjón segir að innan árs verði menn farnir að versla hlutabréf aftur, kannski ekki íslensk bréf, en bandarísk og evrópsk klárlega. Heimurinn verður kominn aftur á skrið eftir 6-9 mánuði.
„Ég skil ekki þá menn sem vilja fara í pólitík hér heima á Íslandi. Íslenskir pólitíkusar eru alltaf gerðir að óvinum. Ég virkilega dái þessa menn sem leggja þetta fyrir sig, því ekki eru launin há. En dugnaðurinn og krafturinn. Þetta fólk opnar heimili sitt fyrir alþjóð. Ég tek ofan fyrir þessu fólki“. Við ættum að gæta betur orða okkar gagnvart þessu fólki, það er auðvelt að vera vitur eftir á, það geta allir verið.

Styðjum hvert annað

En hvaða ráð duga best í kreppunni nú?
Stuðningur við hvort annað er besta meðalið sem við getum breytt í því ástandi sem nú ríkir, segir Friðjón. Það sé fjölmargt sem við getum gert og ýmislegt sé þegar komið í gang.
Friðjón hefur aðeins verið á landinu í fáeinar vikur en segist á þeim tíma þegar vera kominn í fjölmörg verkefni með uppfinningafólki í sjálfboðavinnu því allir verða að leggja hönd á plóg. Gamla reglan um að þegar illa árar, standi menn saman, sé að sanna sig. „Með samvinnu förum við í gegnum þetta ástand en ekki með því að rífast um flokkapólitík. Þann slag verður að leggja til hliðar“.

Friðjón vill sjá að þau fyrirtæki sem þegar séu til staðar séu aðstoðuð, frekar en að stofna til nýrra fyrirtækja. Til hliðar við þau eigum við síðan að styðja sprotafyrirtækin. „Við eigum svo sterkan grunn í mörgum íslenskum fyrirtækjum sem geta strax skilað fjármunum inn í landið á sama tíma og það gæti tekið sprotafyrirtæki 3-4 ár að komast á koppinn,“ segir Friðjón Einarsson  að endingu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024