Skorar á Alþingi og ríkisstjórn að ganga enn ákveðnar til verks í atvinnumálum Suðurnesja
Atvinnuuppbygging á Suðurnesjum er mikilvægasta verkefni Suðurnesjamanna. Það þarf að vinna markvisst að framgangi þeirra verkefna sem eru við það að komast á framkvæmdastig s.s. í Helguvík og á Ásbrú. Ekki er síður mikilvægt að huga að þeim þeim fjölmörgu vaxtabroddum atvinnulífsins sem víða leynast. Þetta segir meðal annars í ályktun um atvinnumál sem samþykkt var á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um nýliðna helgi.
„Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Stapa í Reykjanesbæ, 7.- 8. október 2011 telur atvinnuuppbyggingu vera mikilvægasta verkefni Suðurnesjamanna. Atvinnuleysi á landinu er mest á Suðurnesjum og því mikilvægt að allir aðilar leggist á eitt í uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Það þarf að vinna markvisst að framgangi þeirra verkefna sem eru við það að komast á framkvæmdastig s.s. í Helguvík og á Ásbrú. Ekki er síður mikilvægt að huga að þeim þeim fjölmörgu vaxtabroddum atvinnulífsins sem víða leynast s.s. í tengslum við ferðaþjónustu og alþjóðlegan flugvöll. Þá má ekki gleyma því að sjávarútvegur er ein af undirstöðum atvinnulífs á Suðurnesjum og tryggja þarf rekstraröryggi hans til framtíðar.
Aðalfundurinn skorar á Alþingi og ríkisstjórnina að ganga enn ákveðnar til verks þegar kemur að framgangi þeirra verkefna sem snúa að Suðurnesjunum. Fundurinn tekur undir þau sjónarmið að flytja eigi verkefni á vegum ríksins frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar og í því sambandi er rétt að benda á að Landhelgisgæslan á hvergi betur heima en á Suðurnesjum.
Öll uppbygging atvinnulífs á Suðurnesjum byggir á öruggum flutningi raforku til og frá svæðinu. Því þurfa nýjar háspennulínur að komast í gagnið hið fyrsta. Mikilvægt er að allir aðilar bæði ríkisvald, stofnanir og sveitarfélög leggist á eitt til að tryggja eðlilegan og nauðsynlegan flutning á raforku til og frá Suðurnesjum“.