Skorað á Landsbankann að leggja fé til uppbyggingar atvinnulífs á Reykjanesi
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, tók í gærkvöldi við áskorun frá Guðmundi Péturssyni, stjórnarformanni Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi, þess efnis að Landsbankinn leggi nýstofnuðu atvinnuþróunarfélagi, Heklunni, til 50 milljónir króna á ári næstu 5 árin til öflugrar uppbyggingar atvinnulífs á Reykjanesi.
Áskorunin er eftirfarandi:
„Áskorun til Landsbankans – borin upp á opnum fundi í Stapa 16. Febrúar 2012.
Samtök Atvinnurekenda á Reykjanesi (SAR), sem unnið hafa að eflingu atvinnulífs á Reykjanesi frá stofnum 2010, skora á Landsbankann í forystuhlutverk um að leggja nýstofnuðu atvinnuþróunarfélagi, Heklunni, til fjármuni svo hefja megi atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi af miklu afli.
SAR leggur til að 50 milljónir verði tryggðar árlega næstu fimm ár til öflugrar uppbyggingar atvinnulífs á Reykjanesi“.
Það er Guðmundur Pétursson, stjórnarformaður SAR sem skrifar undir áskorunina f.h. stjórnar Samtaka Atvinnurekenda á Reykjanesi.