Skorað á Ásmund að leiða lista í Rangárþingi ytra
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefur fengið fjölmargar áskoranir um að gefa kost á sér í að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi ytra í komandi sveitarstjórnarkosningum. Það er vefsíðan Eyjar.net sem greinir frá þessu.
Ásmundur segir í samtali við Eyjar.net að undanfarið hafi hann fengið margar áskoranir frá bæði íbúum og forystumönnum í Sjálfstæðisflokknum í Rangárþingi ytra. Ásmundur skoðar það um þessar mundir hvort að hann muni gefa kost á sér í prófkjöri flokksins í sveitarfélaginu.
Sveitarfélag í miklum vexti
„Þetta er virkilega spennandi áskorun. Rangárþing ytra er sveitarfélag í miklum vexti, eins og reyndar flest sveitarfélög á Suðurlandi. Það er viðurkenning að finna slíka eftirspurn eftir kröftum mínum og reynslu hjá jafn vel reknu sveitarfélagi líkt og Rangarþing ytra er. Vissulega þekkir maður ágætlega til á svæðinu, eftir að hafa starfað sem þingmaður í þeirra þágu í um áratug,“ segir Ásmundur Friðriksson við eyjar.net.