Skora á landsmenn að leggja spariféð inn í sparisjóðina
Sveitarfélögin Reykjanesbær, Garður, Sandgerði og Vogar hvetja nú landsmenn til þess að slá skjaldborg um sparisjóðina í landinu og hafa í þeim tilgangi auglýst í útvarpi áskorun um að landsmenn standi saman og leggi sparifé sitt þar inn.
Í áskoruninni segir að nú skipti öllu máli að standa vörð um sparisjóðina. Ríkisstjórnin hafi ítrekað að allt sparifé landsmanna verði tryggt í öllum bönkum og sparisjóðum landsins. „Það mikilvægasta fyrir sparisjóðinn í dag er að landsmenn leggi sparifé sitt þar inn. Þannig sláum við skjaldborg um sparisjóðinn okkar. Stöndum saman, nú sem fyrr,“ segir í áskoruninni.