Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Skömmin hjá þeim sem selja börnum tóbak
  • Skömmin hjá þeim sem selja börnum tóbak
Fimmtudagur 9. júlí 2015 kl. 16:00

Skömmin hjá þeim sem selja börnum tóbak

- segir formaður Heilbrigðisnefndar Suðurnesja.

 

„Þetta eru skelfilegar niðurstöður en erfitt að meta þetta í raun. Við höfum t.d. ekki heimild til að gera slíkar kannanir eins og vitnað er í. Þarna er farið inn í verslun gagngert í þeim tilgangi að fá afgreiðslumann til að afgreiða tóbak til yngri en 18 ára án þess að sá hinn sami sé neytandi. Ekki veit ég hvernig þau bera sig að þegar þau biðja um tóbakið eða hvernig þessi hópur er samsettur sem var í þessu. En það er alltaf slæmt þegar afgreiðslufólk fellur í þá gryfju að áætla aldurinn frekar en að spyrja um skilríki. Það er jú erfitt að sanna aldur ungmenna á þessu reiki öðruvísi en að sjá skilríki. Auk þess sem brot á reglum og auðveldara aðgengi gæti ýtt undir neyslu þeirra á tóbaki,“ segir Þórður Karlsson, formaður Heilbrigðisnefndar Suðurnesja, um niðurstöður könnunar Samsuð á sölu á tóbaki til ungmenna yngri en 18 ára. Um þriðjungur eða 33% verslananna sem voru í úrtakinu, 8 af 24, seldu krökkunum sígarettur og 37% verslana, 9 af 24, seldu þeim munntóbak. Samkvæmt reglugerð um smásölu tóbaks fer heilbrigðisnefnd hvers landsvæðis með leyfisveitingar og eftirlit á smásölu tóbaks.

Ýmsar ástæður gætu legið að baki

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þórður segir skýringar á sölu tóbaks til ungmenna geta verið ýmist vegna álags á starfsfólk, kunningsskapar, kunnáttuleysis eða agaleysis sem fellst í því að spyrja ekki um persónuskilríki. „Einnig gæti það verið ungur aldur og reynsluleysi afgreiðslumanns. Og svo þarf þetta ekki endilega að vera einhver ein ástæða, sjálfsagt misjafnt milli verslana, fer eftir stjórnun og aga.“ Heilbrigðisnefnd Suðurnesja mun að sögn Þórðar halda eftirliti áfram eftir sem áður. „Við styðjumst við reglugerð við leyfisveitingar og þarf að uppfylla þau ákvæði sem þar eru til að leyfi sé veitt. Við ræddum niðurstöður síðustu könnunar á fundi í október 2014 og niðurstaðan þá var að halda áfram að minna söluaðila á lagaskyldur sínar. Við höfum engin önnur vopn í höndunum enda fáum við ekki upplýsingar úr könnuninni um hverjir það eru sem brjóta af sér.“

Forráðamenn sölustaða líti í eigin barn

Þar sem könnunin var gerð í samráði við forráðamenn sölustaða þá sýnist Þórði skömmin vera hjá þeim sem selja tóbak til yngri en 18 ára. Væntanlega hafi allir sem samþykktu að taka þátt talið þetta vera í lagi hjá sér. „Það er nauðsynlegt að forráðamenn sölustaða líti í eigin barm og geri það rétta í stöðunni eins og t.d. að hafa meiri aga á því hvernig afgreiðslu er háttað og veita afgreiðslufólki upplýsingar varðandi verklag og ábyrgð gagnvart þeim reglum sem gilda um sölu tóbaks. Það ætti að gera strax við ráðningu og reglulega þar á eftir. Eftir því sem mér skilst þá er þetta svipuð útkoma og í síðustu könnun. Það væri fróðlegt að sjá upplýsingar um samanburð frá Samsuð við síðustu könnun, t.d. hvort þetta eru sömu aðilar sem standa sig eða eru með ítrekuð brot. Ég bara trúi því ekki að þeir sem hafa verið brotlegir í þessum könnunum séu svo metnaðarlausir að taka sig ekki á,“ segir Þórður.