Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skólphreinsistöð  með útsýnispalli við Ægisgötu
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 12. júní 2020 kl. 07:51

Skólphreinsistöð með útsýnispalli við Ægisgötu

Reykjanesbær hefur lagt fram tillögu að deiliskipulagi fyrir skólphreinsistöð við Ægisgötu. Heimilt verður að byggja á lóðinni skólphreinsistöð, sem verði tvær hæðir að hluta og allt að 900 fermetrar að stærð með útsýnispalli.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar veitir heimild til að auglýsa deiliskipulagstillöguna og að haldinn verði íbúafundur um framkvæmdina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hreinsistöðin verður staðsett á grjótfyllingu út við ströndina neðan Ægisgötu á svæði á móts við hús nr. 27–33 við Hafnargötu. Svæðið sem unnið er með er allt á fyllingu og því manngert á síðari árum. Í aðalskipulagi Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir byggingu skólphreinsistöðvar á þessum stað. Stöðin mun geta afkastað 750 l/s eða allt að 20.000 persónueiningum. Skólpið er hreinsað með eins þreps hreinsun. Auk byggingar hreinsistöðvar verður lögð 1000 metra löng útrás á 28 metra dýpi eftir sjávarbotninum sem og stofnlagnir fráveitu að stöðinni frá norðri. Föstum úrgangi er safnað í lokaða sekki og fargað með brennslu eða öðrum viðurkenndum aðferðum.

Heimilt er að byggja á lóðinni skólphreinsistöð, tvær hæðir að hluta auk þróar, allt að 900 fermetra að stærð með útsýnispalli og er hæsta hæð byggingar frá jörðu sex metrar. Við hönnun byggingarinnar hefur verið lögð áhersla á að fella skólphreinsistöðina inn í núverandi landslag og gera svæðið áhugavert. Hægt verður að ganga upp á hreinsistöðina og á þaki hennar verður útsýnis- og áfangastaður á gönguleiðinni meðfram Ægisgötu. Mannvirkið verður tengt núverandi stígakerfi og hugsað sem áningarstaður með útsýnispalli. Byggingarreitur er rúmur til að rúma möguleika á stækkun.

Hreinsistöðin mun taka við skólpi frá byggðinni í Keflavík, iðnaðarhverfinu í Helguvík og fyrirhuguðu nýju hverfi, Ásbrú Norður, en skólp frá þessum hverfum er nú í dag leitt óhreinsað til sjávar. Frá skólphreinsistöðinni verður hreinsað skólp leitt með útrás um 1000 metra út fyrir strandlengjuna.

Þar sem stöðin er staðsett í umhverfi sem er viðkvæmt fyrir lyktarmengun er gert ráð fyrir búnaði sem að fjarlægir lykt frá útkasti loftræsikerfisins.