Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

„Skólinn þarf að færast nær veruleika nemendanna“
Laugardagur 23. mars 2013 kl. 16:00

„Skólinn þarf að færast nær veruleika nemendanna“

Sigurbjörg Róbertsdóttir er Njarðvíkingur í húð og hár, uppalin þar og gekk í Njarðvíkurskóla. Hún varð stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og kenndi eftir það eitt ár í Garðinum en fór svo í Kennaraháskólann og útskrifaðist þaðan árið 1993. Hún kenndi í Njarðvíkurskóla í 10 ár og síðan í Heiðarskóla þar sem hún var deildarstjóri í 9 ár uns hún var ráðin skólastjóri í Akurskóla á síðasta sumri. Sigurbjörg er með diplómu frá Kennaraháskóla Íslands í stjórnun menntastofnana og hyggst klára masterinn þegar færi gefst. Við tókum hús á nýja skólastjóranum á skrifstofu hennar í Akurskóla og báðum hana að lýsa fyrir okkur þessum yngsta grunnskóla í bæjarfélaginu:

„Akurskóli er skóli í örum vexti. Nú eru um 380 nemendur í skólanum og 55 starfsmenn og það lítur út fyrir að fjölgi um 20 börn á ári næstu árin, þannig að það stefnir í að hann verði stærsti skólinn á svæðinu eftir 2 ár. Skólinn er eini „opni skólinn“ í Reykjanesbæ en það þýðir að lítið er um hefðbundið kennslurými í skólanum heldur opin rými þar sem einum til tveimur árgöngum er kennt saman. Við leggjum áherslu á teymisvinnu kennara og einstaklingsmiðað nám. Með slíku fyrirkomulagi er leitast við að laða fram það besta í öllum, starfsfólki sem nemendum, svo fólk geti unnið út frá sínum sterku hliðum. Svo erum við hér í næsta nágrenninu með frábært útikennslusvæði, Narfakotsseyluna, sem er búið að vera í uppbyggingu síðan 2010 í samvinnu við leikskólana á svæðinu. Það er í stöðugri þróun og við höfum hug á að nýta þetta svæði enn betur á næstu árum. Það má segja að skólinn sé eiginlega úti í sveit því það er svo stutt í náttúruna og frábært að geta nýtt sér umhverfið á þennan hátt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessi tegund skóla hefur verið að ryðja sér rúms undanfarin ár og t.d. hefur ekki verið byggður hefðbundinn skóli í Reykjavík síðastliðin 10 ár. Núna erum við í samstarfi við opna skóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem við erum að kynna okkur þessa kennsluhætti og læra hvert af öðru. Skólastjórarnir hafa verið að funda í vetur og næsta vetur eru fyrirhugað málþing fyrir kennara opnu skólanna. Þessi tegund skóla er enn í miklum minnihluta og stöðugt verið að þróa þetta fyrirkomulag. Því er svona samstarf mjög mikilvægt og við finnum strax jákvæð áhrif á okkar skólastarf þar sem við erum að prófa nýja hluti eftir að hafa fengið hugmyndir frá öðrum skólum.“


Veggir skilgreina ekki kennsluhætti

- Hvernig upplifun er að flytja sig úr stöðu deildarstjóra í hefðbundum skóla yfir í að vera skólastjóri í opnum skóla?
„Já, það voru mikil umskipti get ég sagt þér,“ segir hún og hlær, „en það er samt svo merkilegt að það er alveg hægt að vera í hefðbundnum skóla með opna kennsluhætti og öfugt. Við höfðum verið að vinna í því í Heiðarskóla að opna meira með meira flæði nemenda á milli kennara og að sama skapi erum við líka að vinna að því hér, þó að það séu engir veggir. Veggir skilgreina ekki kennsluhætti heldur eru það kennararnir og starfsemin sem fer fram inni í húsinu. Ég var svo heppin að fá til liðs við mig í stöðu aðstoðarskólastjóra, góða samstarfskonu úr Heiðarskóla, Bryndísi Guðmundsdóttur, sem einnig var deildastjóri þar. Við höfum unnið lengi saman og hugsum sem einn maður. Það er mjög mikilvægt að þessir tveir aðilar gangi í takt og sérstaklega þegar maður er að móta sig við nýtt hlutverk og aðstæður. En það kom mér á óvart hve mikil umskiptin voru úr deildarstjóra í stöðu skólastjóra. Ég var deildarstjóri hjá alveg frábærum skólastjóra, Gunnari Þór, sem var mjög góður í að deila verkefnum. En við vissum greinilega ekki allt um hans starf því þessi mannauðsþáttur sem hann sá mikið um í Heiðarskóla, er miklu stærri en ég gerði mér grein fyrir. Allt sem viðkemur starfsfólkinu er kannski viðbótin sem ég sá kannski ekki alveg fyrir. En þetta eru skemmtileg verkefni og ekki til að kvarta yfir en þau eru krefjandi. Og svo er maður nú ekki í svona stöðu nema maður hafi gaman af að vinna með fólki. Heiðarskóli er líka eldri skóli þar sem hefðir og venjur hafa fest í sessi á meðan Akurskóli er kannski rétt að slíta barnsskónum. Það hafa verið mikil umskipti hér á þessum átta árum sem skólinn hefur starfað, og mikil starfsmannavelta t.d. fimm aðstoðarskólastjórar og stöðugt verið að bæta við starfsmönnum samhliða stækkun skólans. En nú lítur út fyrir að þessi hlutir séu að fara að festast betur í sessi og við förum að sjá fyrir endann á þessari miklu starfsmannaveltu. Ég er með ungt og kraftmikið starfsfólk sem er duglegt að taka að sér verkefni og fylgja þeim alla leið og það er góð menning sem mig langar til að halda í hér.“

- Hefur þú í hyggju að gera miklar breytingar á starfi Akurskóla?
„Nei, ekki neitt afgerandi en ég vonast til að geta viðhaldið þessu jákvæða og kraftmikla andrúmslofti sem hér er. Nú er skólinn á þeim tímapunkti þar sem þarf að fara ákveða hvaða hluti á að festa í sessi og skapa sér sínar hefðir og venjur. En það koma alltaf nýjar áherslur með nýjum stjórnendum og við höfum svo sem gert ákveðnar breytingar á skipulagi, t.d. farið úr þriggja anna kerfi í tveggja anna en stærri breytingar eru ekki á döfinni. Við viljum halda í sérstöðu skólans eins og kostur er en það má ekki gleyma því að við erum skóli sem er að stækka og þá þarf oft að gera breytingar í takt við það. Til dæmis er mjög líklegt að samkennsla árganga sem hefur verið við lýði frá byrjun verði lögð niður en það kemur til vegna fjölgunar nemenda. En ég er mjög hrifin af þessum opnu rýmum því þau bjóða upp á svo marga möguleika, hægt að gera margt mjög skemmtilegt við slíkar aðstæður. En fólk þarf að kunna að vinna í þessu umhverfi.“

- Nú heyrir maður fólk stundum tala um opinn skóla sem agalausa stofnun? Hvað finnst þér um það? Eru meiri agavandamál í opnum skóla en hefðbundnum?
„Já, og ég var líka búin að heyra það áður en ég byrjaði hér. Hér væri hávaði í rýmum og minni agi en gengur og gerist. En það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég byrjaði hér var hve rólegt er í skólahúsnæðinu, bæði á göngum og í rýmunum. Nemendur og kennarar læra að taka tillit til annarra og átta sig á að það verður að nota „inniröddina“ miklu oftar. Miðað við þá skóla sem ég hef unnið í þá eru alls ekki fleiri eða erfiðari agavandamál hér í Akurskóla. Það geta allsstaðar komið upp vandamál og gera í öllum skólum. Mikilvægast er að bregðast rétt við og leyfa ekki vandamálunum að verða of stórum. Þá er gott að hafa gott stuðningsnet í Fræðsluskrifstofunni og því góða fólki sem vinnur þar.“
 

Góður árangur kennurunum að þakka

- Síðustu árin hafa verið jákvæð teikn á lofti í skólamálum á svæðinu, betri útkoma á landsvísu. Hverju er það að þakka og hvernig er  best að viðhalda því?
„Að mínu mati erum við með mjög góða skóla hér í Reykjanesbæ, vel stjórnað og með góða og vel menntaða kennara. Og þessi árangur sem við erum að sjá núna er fyrst og fremst að þakka kennurunum sem eru að vinna á gólfinu. Það eru þeir sem eru búnir að ná þessum árangri með börnunum með breyttum kennsluháttum og gera meiri kröfur. Þeir hafa þurft að þróa sig og bæta til þess að ná þessum árangri. Þessari vinnu fylgir mikið álag og þeir eiga hrós skilið fyrir sína vinnu. Til að viðhalda þessari uppsveiflu þurfum við að passa okkur að sofna ekki á verðinum, halda áfram að fylgjast með nýjungum og hætta að gera það sem virkar ekki, vera óhrædd að gera breytingar þar sem við teljum þurfa. Svo er mjög mikilvægt að við lærum hvert af öðru og ég held að það sé að aukast. Við erum óhræddari við að fara og skoða það sem vel er gert í öðrum skólum, fá hugmyndir og prófa hvort þær virki. Menn voru meira hver í sínu horni hérna áður fyrr en það er sem betur fer að breytast.“

- Hver er þín skoðun á stöðu grunnskólans almennt á landinu? Erum við á réttri leið?
„Ég hef tekið þátt í starfi Skólastjórafélags Íslands undanfarin ár og þegar maður hittir skólastjóra frá ólíkum landshornum skellur á manni sú staðreynd hve skólarnir í landinu búa við ólíkt landslag. Ég held t.d. að margir skólarnir úti á landi séu mun lengra komnir á sumum sviðum eins og í einstaklingsmiðaðu námi og samkennslu, sem margir halda að séu fyrirbæri sem hafi verið fundið upp í Reykjavík. En mér sýnist við í heildina standa nokkuð vel og að menn séu yfirleitt tilbúnir að standa upp og gera sitt besta. Mín skoðun er að við þurfum að passa okkur að fara ekki út í einhverja einstefnu með stórum slagorðum sem eigi að gilda yfir alla línuna. Krafa nútímans er að hægt sé að velja um ólíkar gerðir skóla og við verðum að vera tilbúin að bregðast við því, vera óhrædd við að auka fjölbreytnina og hafa nógu mikið í boði. Mér finnst mikilvægt að foreldrar geti valið milli ólíkra skóla fyrir börnin sín í stað þess að hafa bara einn valkost.“


 

Mikilvægt að nýta tæknina betur
 

- Hvaða leið er að þínu mati vænlegust fyrir skólakerfið að laga sig að kröfum síbreytilegs samfélags?
„Skólar eru í eðli sínu íhaldssamar stofnanir. Stjórnendur og starfsfólk skóla hafa oft ríka tilhneigingu til að vilja ekki vera að breyta, menn vilja halda starfinu í svipuðu fari og það var þegar þeir sjálfir voru í skóla. Svipað viðhorf er einnig ríkt hjá í samfélaginu, að halda ákveðnum stöðugleika, og þetta stendur oft í vegi fyrir því að skólarnir gangi í takt við breytingarnar í samfélaginu. Einn mikilvægasti þátturinn í þessu er að nýta tækni nútímans betur í skólastarfinu. Það má ekki vera of langt bil milli raunveruleikans hjá barninu og veruleikans í skólanum. Við höfum verið of upptekin að banna tæki sem börnin eru að nota, eins og t.d. snjallsímana og samfélagsmiðla eins og facebook. Við eigum miklu fremur að kenna þeim að nota þessi tæki sér til gagns. Svo þurfum við að vera að endurskoða í sífellu kennsluna sjálfa og starf kennarans, ekki njörva það niður í hólf með tilskipunum í kjarasamningum, heldur treysta skólastjórunum til að stýra skólunum.“

- Nú eru launamál í þjóðfélaginu í brennidepli. Hvernig finnst þér staða kennara í því samhengi?
„Kennarar hafa dregist verulega afturúr í launum og það þarf að leiðrétta. Þetta er mikið og ábyrgðarfullt starf sem á að vera vel borgað. En því miður hefur það verið hugsunin hér gegnum árin að þeir sem sinna umönnunar-, fræðslu- og uppeldisstörfum séu á lægstu launum á meðan þeir sem eru að passa peningana okkar eigi að vera á hæstu laununum. Þetta er spurningin um það hvað menn telja vera hin raunverulegu verðmæti.  Það myndi eitthvað vera sagt ef við í uppeldisgeiranum myndum týna hluta af börnunum eins og þeir gerðu með peningana í hruninu. En því miður er ég hrædd um að þetta viðhorf sé ekkert að fara að breytast og finnst ekki horfa vel í kjaramálum kennara.“
 

Maður þarf stundum að vera vondur til að vera góður

- Hvað með uppeldi í landinu almennt?
„Auðvitað eru margir foreldrar að standa sig vel, því má ekki gleyma, en svona almennt séð þá held ég að við séum að glíma við þetta agaleysi sem varð stærsti valdurinn að þessu blessaða hruni. Fólk setur ekki skýr mörk og reglur og gerir ekki kröfur til barnanna. Ég segi nú oft að stundum þurfi maður að vera vondur til að vera góður, maður þarf að setja mörk og standa við það sem maður segir. Við kennum börnunum okkar mest með því og þó þau skilji það kannski ekki meðan á því stendur þá kunna þau svo sannarlega að meta það þegar þau verða eldri. En ég held því miður að þetta íslenska agaleysi sé ekkert á undanhaldi. Það er gríðalega mikilvægt að við kennum börnunum okkar ábyrgð og það er fyrst og fremst foreldranna að sjá til þess, ekki skólanna. Það eru foreldrarnir sem bera ábyrgð á því að börnin þeirra hagi sér vel í skólanum, svo dæmi sé tekið, og í raun eru það foreldrarnir sem bera ábyrgð á menntun barna sinna. Ef þú eignast barn ert það þú sem átt að sjá um það og koma því til manns en ekki stofnanir samfélagsins. Menntun er svo vítt hugtak sem snýst ekki bara um að læra einhverjar staðreyndir heldur allt það sem þarf til að verða hluti af þessu samfélagi sem við lifum í.“

- Hvernig sérðu fyrir þér grunnskóla framtíðarinnar?
„Mér finnst núna vera svo mikið að gerast, svo hröð þróun á ýmsum sviðum í samfélaginu og ég vona að skólinn komi til að tileinka sér og laga sig að þessum breytingum. Skólinn er náttúrulega mjög íhaldssöm stofnun, svona eins og stórt olíuskip, erfitt að breyta um stefnu. En það er ljóst að skólinn þarf að færa sig nær því sem er raunverulegt fyrir nemendur, kenna umgengni og rétta notkun þeirra tækja sem eru almennt í notkun í samfélaginu, í stað þess að úthýsa þeim úr skólanum. Það er okkar hlutverk. Ég sé að ný tækni kemur til með að breyta hlutverki kennarans, hann færist frá því að standa fyrir framan nemendur og segja þeim hvað þeir eigi að gera yfir í að vera þeim til aðstoðar við þeirra vinnu. Námið færist þannig til nemandans sjálfs, verður meira samvinnutengt og miðast meira við hans reynsluheim og þarfir. Eins og góður maður sagði um þessi mál: „Við verðum að fara að hætta að kenna“. Tæknin sem slík er ekki endilega svarið heldur sú hugarfarsbreyting sem þarf hjá stjórnendum skólanna og kennurum til að laga skólastarfið að nýjungum. Ég vona að á næstu tuttugu árum sjái ég meiri breytingar en ég hef séð á þessum tveimur áratugum sem ég hef starfað í grunnskóla.“