Skólastjórastaða í Garði auglýst
Staða skólastjóra Gerðaskóla í Garði hefur verið auglýst laus til umsóknar. Talsvert hefur verið tekist á um skólamál í Garði en gerður var starfslokasamningur við fyrrverandi skólastjóra Gerðaskóla um síðustu áramót og nýr skólastjóri ráðinn tímabundið.
Umsóknir skulu berast bæjarskrifstofu Sveitarfélagsins Garðs í síðasta lagi 1. maí næstkomandi. Skólastjóri ber faglega og rekstrarlega ábyrgð á starfi skólans, stjórnar honum og hefur forgöngu um mótun faglegrar stefnu.
Menntunarkröfur til skólastjóra Gerðaskóla eru kennaramenntun og réttindi til kennslu í grunnskóla. Framhaldsmenntun á sviði stjórnunar eða uppeldis- og menntunarfræða æskileg.