Skólastjóraskipti í Holtaskóla
Jóhann Geirdal hættir og Eðvarð Þór tekur við.
„Ákvörðunin hefur ekkert að gera með rekstur Myllubakkaskóla eða samskipti mín við starfsfólk, nemendur og foreldra þar. Mig langaði einfaldlega í þetta starf og sló til,“ segir Eðvarð Þór Eðvarðsson, skólastjóri Myllubakkaskóla en Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti beiðni Eðvarðs Þórs um tilfærslu í starfi fimmtudaginn 13. mars síðastliðinn. Hann hefur störf sem skólastjóri Holtaskóla í haust og tekur við keflinu af Jóhanni Geirdal, sem hefur sinnt því starfi síðan 2007.
Eðvarð Þór hefur verið skólastjóri Myllubakkaskóla í tvö ár og var þar áður aðstoðarskólastjóri í Holtaskóla og þar áður kennari við Heiðarskóla. Staða skólastjóra Myllubakkaskóla hefur þegar verið auglýst.