Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 16. nóvember 2000 kl. 10:19

Skólastarf lamað í FS !

Það verður sífellt erfiðara að ráða kennara á haustin til starfa í skólunum. Ástæðan er einföld, launin eru allt of lág að mati háskólamenntaðs fólks sem vill ekki lengur sinna þessu krefjandi starfi án verulegrar launahækkunar. Kennararnir í Fjölbrautaskóla Suðurnesja standa í ströngu þessa dagana og allt útlit er fyrir að þeir komi ekki til starfa í bráð. Ægir Sigurðsson kennari í FS er í samninganefnd og fundaði með samstarfsfélögum sínum hér í vikunni og skýrði þeim frá stöðu samningamála. Framhaldsskólakennarar eru með 30% lægri laun en aðrir háskólamenntaðir aðilar innan BHMR sem þeir vilja miða sig við. Samninganefnd ríkisins viðurkennir þennan launamun en hefur samt ekki viljað neina leiðréttingu. Ægir sagði að samningar gengju hægt og lítið þokaðist áfram því þeir ræðast varla við. Aðalvandamálið er að samninganefnd ríkisins vill ekki hækka grunnlaunin og á því stranda allar viðræður. Kennarar mótuðu kröfur sínar og vilja u.þ.b. 190.000 krónur í lágmarkslaun sem viðsemjendum þeirra þykir fráleitt. Samkvæmt viðmiðunartaxta lágmarkslauna skal það tekið fram að á fyrsta ársfjórðungi þessa árs eru meðalmánaðarlaun verkamanns 114.600 krónur, meðalmánaðarlaun iðnaðarmanna eru 193.400 kr. og sérfræðinga eru 246.700 kr. en kennarar eru sérfræðingar. Magnús Ó. Ingvarsson er stærðfræðikennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hefur kennt í 30 ár. Grunnlaun Magnúsar eru 127.000 krónur. „Hugur minn er blendinn þessa dagana. Almennt séð er ég ekki hrifinn af verkföllum en nauðsyn brýtur lög. Ég á alveg eins von á löngu verkfalli vegna þess að þó það sé viðurkennt að kennarar hafi dregist aftur úr, þá er enginn vilji til að minnka mun á okkur og öðru háskólamenntuðu fólki. Það væri óskandi að verkfallið verði stutt en ég held að það sé ekki raunsætt mat.“ Jón Óskar Jónsson hóf kennslu í haust hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja en grunnlaun hans eru 96.000 krónur á mánuði. „Ég fékk 80.000 krónur í peningum í fyrstu útborgun og fékk áfall. Þetta voru strípuð laun án yfirvinnu. Yfirvinnan kippir þessu aðeins upp, launin eru samt lág. Ég sé fram á að ég geti ekki lifað ef þessum launum. Ég veit það eru betri tekjur annars staðar. Ég er að klára sérverkefni mitt og fæ BS gráðu í lífefnafræði í febrúar og veit að Íslensk erfðagreining gæti borgað betur. Peningalega séð væri mér betur borgið þar en kennsla er skemmtilegt starf en svekkjandi hvað hún er illa borguð. Ég veit ekki hvort ég kenni næsta haust. Peningar skipta jú máli þegar maður skuldar mikið. Ég er búinn að fjárfesta í sjálfum mér með námslánum í nokkur ár og nú vil ég uppskera.Til þess er maður nú að mennta sig því maður heldur að menntun borgi sig. Kennarar hamra meðal annars á þessu og sjá um að mennta lýðinn en eru svo sjálfir með langlægstu tekjurnar!“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024