Skólasetningar með breyttu sniði
Skólasetningar fóru fram í grunnskólum Reykjanesbæjar í dag að Stapaskóla undanskildum, þar fer skólasetning fram á morgun.
Vanalega er skólasetning hátíðarstund. Tilhlökkun fyrir fyrsta skóladeginum er mikil, bæði meðal nemenda sem og kennara. Þetta árið fara skólasetningar þó fram í skugga veirufaraldursins COVID-19 og öllum þeim takmörkunum sem sóttvarnaryfirvöld hafa sett til að stemma stigu við honum. Í flestum tilvikum mættu nemendur því án foreldra sinna þennan fyrsta dag skólaársins og í stað þess að fjölmenna á sal skólanna var þeim skipt niður í fleiri og smærri einingar með kennurum sínum.
Nemendur 8. bekkjar Heiðarskóla mættu í fylgd eins forráðamanns enda fékk hver og einn nemandi afhentan iPad fyrir námið sem forráðamaður þurfti að ábyrgjast fyrir hönd barns síns. Árgangnum var skipt niður á fjórar skólasetningar til að uppfylla sóttvarnaskilyrði, allir sprittuðu sig og gættu að tveggja metra reglunni. Umsjónarkennarar fóru yfir ýmis atriði sem þarf að taka tillit til vegna þeirra aðstæðna sem fylgja hertum sóttvarnareglum, s.s. er mælst til þess að nemendur mæti með drykkjarvatn að heiman þar sem sameiginlegir vatnskranar eru ekki aðgengilegir á þessum tímum því þeir gætu mögulega borið smit milli nemenda. Það er ýmislegt sem þarf að taka tillit til þegar aðstæður eru sem þessar.
„Skólasetningarnar voru í ljósi aðstæðna með breyttu sniði í ár. Ýmist var óskað var eftir því að foreldrar kæmu ekki með börnum sínum á setninguna eða þá að aðeins eitt foreldri kæmi og tveggja metra reglan virt. Hver og einn skóli sá um útfærsluna út frá aðstæðum í hverjum skóla,“ sagði Haraldur Axel Einarsson, grunnskólafulltrúi Reykjanesbæjar.