Skólamötuneytið rekið af bæjarfélaginu
Mötuneytið í Stóru-Vogaskóla er nú rekið af bæjafélaginu eftir að samningum við verktaka var sagt upp á síðasta skólaári.
„Leikskólinn er heilsuleikskóli og þar er sérstök áhersla lögð á gott mataræði og unnið samkvæmt markmiðum Lýðheilsustöðvar. Sú ákvörðun var tekin að færa þetta yfir á báða skólana og samnýta mötuneytið. Við viljum gera þetta almennilega og hafa í heiðri viðmið um hollustuhætti,“ sagði Eirný Valsdóttir, bæjarstjóri í samtali við VF. Að hennar sögn virðist almenn ánægja vera með þetta fyrirkomulag og því hafi ekki þótt ástæða til bjóða út rekstur mötuneytisins á nýjan leik. Það sé þó ekki útlokað í framtíðinni ef ástæða þykir til.