Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Skólamáltíðir hækka í Reykjanesbæ
Föstudagur 19. ágúst 2022 kl. 07:06

Skólamáltíðir hækka í Reykjanesbæ

Skólamatur ehf. eini aðilinn sem bauð. Tilboðið um fjórðungi hærra en núverandi verð. Óvissa og hækkanir á aðföngum og fleiri liðum ástæða hækkunar.

Aðeins eitt tilboð barst í útboði skólamáltíða í Reykjanesbæ sem fór fram nýlega og var það frá Skólamat. Er tilboðið 26,5% hærra en núverandi verð, eða 825 kr. pr. máltíð, án niðurgreiðslu sveitarfélagsins. Verð síðasta vetur var kr. 454 pr. máltíð í grunnskólum Reykjanesbæjar.

Að teknu tilliti til niðurgreiðslu sveitarfélagsins var það í lægri kantinmu í samanburði við sambærileg sveitarfélög. Hjá þeim var verð þannig; Reykjavík kr. 535, Kópavogur kr. 523, Hafnarfjörður kr. 487, Akureyri kr. 508 og Garðabær kr. 535. Ekki liggja fyrir upplýsingar um verð á skólamáltíðum hjá þessum sveitarfélögum á komandi vetri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ef Reykjanesbær heldur áfram að niðurgreiða skólamat um 30% eins og verið hefur mun áskriftarverð nema 575 kr. pr. máltíð eftir hækkun. Samkvæmt tilboðinu mun kostnaður Reykjanesbæjar vegna hádegismatar í grunnskólum hækka um tæpar 80 millj. kr. á ársgrundvelli, úr kr. 295.742.200 í kr. 375.309.000, miðað við óbreyttan fjölda nemenda sem nýtir þjónustuna.

Samkvæmt tilboðinu hækkar einnig verð á máltíðum í þeim leikskólum sem kaupa mat af Skólamat og er sá viðbótarkostnaður áætlaður um 10 millj. kr. og kostnaður vegna síðdegishressingar í frístundaheimilum hækkar um 6,5 millj. kr. 

Ástæður hækkana má til þeirra breytinga og hækkana sem orðið hafa á vísitölu neyslusverðs, matvæla, hráefnis og launa.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, sagði að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hefðu þegar ákveðið að taka tilboðinu en frekari útfærsla yrði til umræðu í bæjarráði nk. fimmtudag. 

Að sögn Jóns Axelssonar framkvæmdastjóra Skólamatar ríkir mikil eftirvænting hjá þeim fyrir nýjum og breyttum þjónustusamningi.

Skólamatur hefur þjónustað Reykjanesbæ með skólamáltíðir frá árinu 2005 og segir Jón að samstarfið hafi alla tíð verið farsælt. Í nýjum þjónustusamningi eru talsverðar áherslubreytingar þar sem sveitarfélagið leitaðist eftir aukinni þjónustu frá fyrri samningi.

Jón segir að það verði spennandi áskorun að takast á við þau verkefni sem framundan eru, sérstaklega þar sem óvissuþættir í rekstri matvælafyrirtækja verða miklir á næstu misserum.  Tilboðsverð er að sögn Jóns í samræmi við sambærileg verkefni.