Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 10. maí 2000 kl. 16:15

Skólahverfi Reykjanesbæjar breytast

Skóla- og fræðsluráð hefur lagt til að skólahverfi Holtaskóla verði stækkað til norðurs í sumar og er hugmyndin að bæta við hverfið götunum frá Smáratúni að Vesturgötu, Nónvörðu, Ásgarði, Baldursgarði, Fagragarði, Miðgarði, Hamragarði og Grænagarði. Nemendur sem nú eru í 9. bekk Heiðarskóla munu þó eiga þess kost að ljúka 10. bekk í núverandi skóla. Málið verður væntanlega afgreitt í bæjarstjórn þriðjudaginn 16. maí. Ráðið vill með þessu nýta betur skólahúsnæði Reykjanesbæjar og jafna fjölda barna í bekkjadeildum skólanna, þannig að í hverri deild verði 20-24 nemendur. Þegar skipting skólahverfa hófst á síðasta ári var áætlað að um 430 börn myndu stunda nám í Heiðarskóla, en í vetur hafa nemendur verið um 460. Skýringar þessa fjölda eru óljósar. Að sögn Skúla Þ. Skúlasonar, oddvita bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, eru það honum talsverð vonbrigði, ef hreyfa þarf strax við skólahverfunum og líklega hafa þá réttar forsendur ekki verið fyrir hendi við skiptingu skólahverfa sl. haust. „Þetta er mjög viðkvæmt mál, enda uppeldislega vafasamt að hreyfa börn mikið til á milli skóla, eins og dæmi eru um börn sem voru í Myllubakkaskóla 1998, fóru svo í Heiðarskóla 1999 og eiga svo skv. tilögunni að fara í Holtaskóla árið 2000, en þetta er það er það helsta sem mælir gegn tillögu skólanefndar,“ segir Skúli. „Ég myndi sjálfur vilja að við einbeitum okkur að stærstu árgöngunum í Heiðarskóla og höfða til foreldra þeirra barna að þau skoði af mikilli alvöru að þau óski eftir flutningi yfir í Holtaskóla. Í sumum árgöngum eru 26-29 nemendur í hverri deild í Heiðarskóla og því erfiðara að veita þeim fullnægjandi þjónustu, eins og þau eiga skilið. Verði bekkjadeildir fámennari er auðveldara fyrir kennara að sinna hverjum og einum og líklegra að börnum líði vel í skólanum. Skólanefndin er þó einhuga um þessa tillögu og hefur skoðað málið mjög gaumgæfilega og með langtímamarkmið í huga,” segir Skúli að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024