Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skólaátak í Reykjanesbæ í leiðara Morgunblaðsins
Mánudagur 30. janúar 2006 kl. 11:31

Skólaátak í Reykjanesbæ í leiðara Morgunblaðsins

Leiðari Morgunblaðsins fjallar í dag um skólamál í Reykjanesbæ í kjölfar á opnuumfjöllun í blaðinu í gær um skólastarfið í Reykjanesbæ. Þar segir:

„Í Reykjanesbæ hefur verið bryddað upp á mjög áhugaverðum nýjungum í skólastarfi. Ætlunin er bæði að auka áhuga nemenda á náminu og virkja foreldra meira í skólastarfinu en gert hefur verið og það er gert með margvíslegum hætti eins og kom fram í úttekt Sigríðar Víðis Jónsdóttur í Morgunblaðinu í gær.

Það hafði verið ljóst að átaks var þörf í skólamálum á Suðurnesjum. „Þótt það sé ekki algildur mælikvarði á menntun höfðu meðaleinkunnir á samræmdum prófum á Suðurlandi verið slakar,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, í viðtali við Morgunblaðið í gær. „Þetta var meðal annars ástæða þess að við fórum að velta fyrir okkur þeim þáttum sem taldir eru skipta máli í tengslum við skólagöngu barna og hvað hægt væri að gera varðandi þá.“

Í hinni nýju skólastefnu Reykjanesbæjar er fjölskyldan sett í fyrirrúm. Það felst meðal annars í því að þegar vinnudegi foreldra lýkur er skóladegi einnig lokið og fjölskyldan getur varið tímanum saman. Þetta er meðal annars tryggt með því að fella íþróttaæfingar og tónlistarnám inn í skólatímann.

Skólastarfið nær frá leikskólum og til háskólastigsins. Í leikskólum bæjarins er mikið unnið með tunguna og foreldrum leiðbeint um málörvun barna. Leikskólaverkefnið hlaut viðurkenningu Íslenskrar málnefndar á degi íslenskrar tungu.

Í Reykjanesbæ hafa einnig verið teknir upp svokallaðir heiðurslistar eins og þekkjast meðal annars í Bandaríkjunum. Eiríkur Hermannsson, fræðslustjóri í Keflavík, segir í Morgunblaðinu að markmiðið með heiðurslistunum hafi verið að auka metnað nemenda og áhuga foreldranna. „Hrós er jákvætt uppeldistæki og krakkar þurfa að vita þegar þeir standa sig vel,“ segir hann. „Hægt er að komast á blað fyrir miklar framfarir og iðjusemi en ekki einungis hæstu einkunnir.“

Foreldrum barna á aldrinum tveggja til tólf ára hefur verið boðið að fara á námskeið í uppeldistækni þeim að kostnaðarlausu og hefur um þriðjungur foreldra barna á þessum aldri í Reykjanesbæ nú sótt námskeiðin. Segir Gylfi Jón Gylfason, yfirsálfræðingur hjá Reykjanesbæ og kennari á námskeiðum, að hegðun krakkanna hafi greinilega batnað eftir að námskeiðin hófust.

Í Reykjanesbæ er nú rekin íþróttaakademía þar sem nemendur í framhaldsskólanum geta farið á afreksbraut. Markmiðið er að nemendurnir nái bæði betri árangri í sinni íþrótt og standi sig betur í náminu. Í Íþróttaakademíunni er einnig nám á háskólastigi í íþróttafræðum í samvinnu við Háskólann í Reykjavík.

Þessi gróska í skólamálum í Reykjanesbæ er til fyrirmyndar. Með markvissu starfi er reynt að kveikja áhuga nemenda með því að leggja áherslu á að allir hafi eitthvað fram að færa og gefa öllum kost á að blómstra. Með því að virkja foreldra er þeim gerð grein fyrir því að þeir séu ekki áhorfendur að námi barna þeirra, heldur þátttakendur, sem eigi hagsmuna að gæta. Einnig er athyglisvert að bæjaryfirvöld leggi áherslu á að dagur barnanna verði skipulagður þannig að vinnudegi þeirra ljúki um leið og vinnudegi foreldranna. Þannig er hægt að fjölga samverustundum fjölskyldunnar. Ekki er síður ástæða til að hrósa því framtaki að foreldrar í Reykjanesbæ eiga þess nú kost að velja skóla fyrir börn sín, þótt allir eigi kost á hverfisskóla. Það er fyrirkomulag, sem ætti að taka upp víðar því að það eykur ekki aðeins kosti foreldra heldur veitir einnig skólunum aðhald og kallar á metnað í starfi þeirra. Átakið í Reykjanesbæ lofar góðu og verður forvitnilegt að fylgjast með útkomunni á næstu árum,“ segir í leiðara Morgunblaðsins í dag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024