Fréttir

Skoðanir nemenda skipta máli
Þriðjudagur 11. desember 2018 kl. 15:02

Skoðanir nemenda skipta máli

Kennarar og annað skólafólk í grunnskólum er sífellt að leita leiða til að efla lestur og lesskilning ásamt því að reyna að efla áhuga á lesefni almennt. Kennarar í Njarðvíkurskóla vildu fá nemendur með sér í lið og fá hugmyndir frá þeim sjálfum til að vinna úr, í því skyni að gera breytingar á lestrarumhverfi, lesefni og áherslum, í takt við fjölbreyttar og ólíkar þarfir nemenda með von um aukinn áhuga á lestri.

Var því ákveðið að halda lýðræðisfund með nemendum í 5.–10. bekk sem lestrarteymi skólans stóð fyrir. Var nemendum skipt upp í sex til níu manna hópa og fengu allir hóparnir sex spurningar. Voru þetta spurningar eins og: „Hvað myndi auka áhuga þinn á lestri?“ og „Hvernig getum við nýtt tæknina til að efla læsi?“. Einnig var spurt hvernig heimilin geta stutt enn betur við nemendur, hvernig lestrarspretti nemendur myndu vilja hafa innan skólans, hvaða breytingar þeir myndu vilja sjá innan skólans sem myndu auka áhuga þeirra á lestri, og hvert áhugamál þeirra væri óháð bókum eða lesefni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fundirnir gengu afar vel og komu fjölmargar frábærar hugmyndir frá nemendum. Þegar spurt var um hvernig heimilin gætu stutt betur við lestrarnám og áhuga nemenda fannst nemendum t.d. að lestrarfyrirmyndir væru mikilvægar og að þeir gætu gert eitthvað skemmtilegt með foreldrum sínum þegar þeir væru búnir að lesa. Þeim fannst mikilvægt að foreldrar væru til staðar og hlustuðu þegar þeir væru að lesa og að fjölskyldan færi oftar saman á bókasafn. Þeir töldu að heimabókasafn eða bókakassi myndi hjálpa til við að auka áhuga á lestri og að foreldrar læsu fyrir þá þó þeir væru komnir á unglingastig. Einnig kom hugmynd um að vera með kósýkvöld heima og lesa saman. Sumir hóparnir veltu því einnig fyrir sér hvort það væri kannski nóg að lesa bara í skólanum. Þegar spurt var um hvernig tæknin gæti mögulega hjálpað til við að efla læsi komu fram hugmyndir um að nýta betur rafræn bókasöfn, vera með meira efni á hljóðbókum og nýta spjaldtölvur enn betur en gert er nú til lesturs. Þær breytingar sem nemendur myndu vilja sjá innan skólans til að auka áhuga þeirra á lestri eru t.d. að skapa notalegt lestrarumhverfi, vera með fjölbreyttara lesefni og finna leiðir til að gera ritmálið sýnilegra í öllum skólanum. Lokaspurningin var um lestrarspretti skólans og voru nemendur beðnir um að koma með sínar skoðanir á þeim. Voru þær allt frá því að sleppa þeim alveg og yfir í það að hafa þá oftar en nú er. Einnig komu þar hugmyndir um meiri keppni í lestri, alls kyns þemu og lestrarmaraþon.

Fjölmargar áhugaverðar hugmyndir komu fram, t.d. að vera með áskrift að tímaritum, vera með „lesa bara í síma-dag“ og vera með fleiri fyrirlestra um bækur.  Niðurstöður fundanna hafa verið kynntar fyrir nemendum og niðurstöður sendar foreldrum í tölvupósti.

Ef hugmyndir nemenda eru dregnar saman má sjá að þeir óska eftir notalegra lestrarumhverfi, fleiri stöðum innan skólans þar sem bækur og lesefni er sýnilegt, fjölbreyttara lesefni og auknum stuðningi frá foreldrum. Er ljóst að nemendur í Njarðvíkurskóla hafa sterkar skoðanir á lestri og lestrartengdu efni, og áttu þeir afar auðvelt með að koma skoðunum sínum á framfæri. Framundan hjá lestrarteymi skólans er vinna við að fara betur yfir hugmyndir nemenda og koma af stað breytingum í samstarfi við stjórnendur og nemendur, með von um aukinn áhuga og betri skilning á fjölbreyttu lesefni, með það að markmiði að koma enn betur til móts við þarfir og áhugasvið nemenda.