Skoða möguleika á að bora eftir vatni á Ströndinni
Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga leggur til að skoðaður verði sá möguleiki að bora eftir vatni á Vatnsleysuströnd þar sem það svæði er minnst útsett fyrir jarðhræringum og eldsumbrotum.
Minnisblað um mögulega mengunarhættu frá eldsumbrotum á vatnsverndarsvæði fyrir vatnsbólin á Lágasvæðinu í Grindavík og í Vogavík í Vogum var lagt fram á síðasta fundi bæjarráðs sveitarfélagsins. Minnisblaðið var tekið saman af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, HS Veitum, HS Orku, Sveitarfélaginu Vogum, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands og ÍSOR.
Bæjarráð þakkar í afgreiðslu málsins góða vinnu við greiningu á stöðu neysluvatnsmála í sveitarfélaginu og leggur áherslu á að unnið sé áfram að viðbragðsáætlunum til að tryggja neysluvatn með HS veitum.