Skoða kostnað við að rífa kísilverið og selja ofninn
Arion banki skoðar þessa dagana hvað það kostar að taka kísilverið í Helguvík niður og koma ofni verksmiðjunnar í verð. Þetta kom fram í viðtali við Benedikt Gíslason, bankastjóra Arion banka, í Dagmáli Morgunblaðsins á föstudaginn.
„Við erum í dag búnir að setja endapunkt við þetta verkefni okkar í Helguvík. Það var aldrei markmið bankans að fara í þennan rekstur. Þegar fyrirtækið féll, til að verja útlánahagsmuni bankans, var það tekið yfir og við höfum í einhvern tíma verið að reyna að finna kaupendur að verkefninu. Síðasta niðurfærsla endurspeglar svolítið að við teljum að það séu minni líkur en okkurn tímann áður að þarna verði starfrækt kísilverksmiðja,“ sagði Benedikt í viðtalinu.
Benedikt telur að lóðin staðsetningin og innviðirnir sem voru byggðir upp í kringum kísilverið í Helguvík gætu nýst í annan orkufrekan iðnað, grænan vonandi, og verði þess valdandi að á næstu árum sjái bankinn einhverja aðra starfsemi þarna.
„Þess vegna færðum við þessa eign niður á verðmæti lóðarinnar og erum þessa dagana að skoða hvað það kostar okkur að taka verksmiðjuna niður og hvort við getum fengið eitthvað fyrir þennan stóra ofn sem þarna var keyptur til að framleiða þennan kísil,“ sagði bankastjórinn í viðtalinu.