Skoða bílastyrki sóknarprests
Kirkjuráð, í samstarfi við Ríkisendurskoðun, rannsakar nú akstursgreiðslur frá sóknarnefndum til séra Baldurs Rafns Sigurðssonar, sóknarprests í Njarðvíkurprestakalli, samkvæmt frétt á RÚV á laugardag. Sóknarpresturinn hefur fengið akstursgreiðslur frá sóknarnefndum þrátt fyrir að slíkt sé óheimilt samkvæmt starfsreglum. Þær kveða á um að sóknarnefndum sé ekki heimilt að styrkja það sem fellur undir embættiskostnað presta.
Í viðtali við Stundina segir séra Kristján Björnsson, formaður Prestafélags Íslands, að slíkar akstursgreiðslur séu á gráu svæði, að Kirkjumálasjóður greiði embættiskostnað presta með föstum uppphæðum eftir stærð prestakallsins. Þá segir hann aksturgreiðslur fátíðar en að í því felist ekki neinn áfellisdómur.
Innan sókna Njarðvíkurkirkju eru 7.400 manns og var ákveðið fyrir 24 árum þegar Baldur hóf störf að hann myndi njóta sömu kjara og forveri hans. Hann fær greitt fyrir 800 km akstur á mánuði, eða 88.000 krónur. Í Njarðvíkurprestakalli eru þrjár sóknir, Ytri-Njarðvíkursókn, Njarðvíkursókn og Kirkjuvogssókn í Höfnum. Akstursgreiðslur til sóknarprests eru ekki frá Kirkjuvogssókn, heldur hinum tveimur.
Í yfirlýsingu formanna sóknarnefndanna þriggja sem lesa má á RÚV segir meðal annars að Baldur hafi þjónað stóru prestakalli einn og verið vakandi og sofandi yfir sóknarbörnum sínum þau 24 ár sem hann hefur þjónað þar. Litið hafi verið á sem svo að sóknarnefndunum bæri að styrkja það starf sem sóknarprestur hefði með höndum og öll þau mál sem hann annaðist fyrir hönd sóknarnefnda og þurfa aksturs við. Akstursgreiðslurnar hafi verið til að þess að efla starfið og til þess að presturinn bæti sinnt sóknarbörnum í öllu prestakallinu, stofnunum á Suðurnesjum og fleiri stöðum, svo sem á spítölum á höfuðborgarsvæðinu.
Sóknarnefndir töldu að þeim bæri að styrkja það starf sem sóknarprestur hefði með höndum.