Skjálftinn talinn tengjast spennuhreyfingum
Stóri jarðskjálftinn sem varð í gærkvöldi við Grindavík er líklegast talinn tengjast spennuhreyfingum í jarðskorpunni vegna eldgossins í Fagradalsfjalli. Þetta er stærsti skjálfti sem mælst hefur á Reykjanesskaga síðan 15. mars eða frá því áður en gos hófst.
Klukkan 23:05 varð skjálfti af stærðinni 4.1 um 3km NA af Þorbirni. Tilkynningar bárust Veðurstofunni að hann hafi fundist víða á Suðvestur- ,Suður- og Vesturlandi eða allt austur á Hellu og norður í Grundarfjörð. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið.