Skjálftinn fannst vel í Grindavík
Þegar jarðskjálftinn sem átti upptök sín við Krísuvík reið yfir um klukkan 2 í nótt var Kristín Sigurjónsdóttir eigandi verslunarinnar Aðalbrautar í Grindavík nýkomin upp í rúm en var ekki sofnuð. „Rétt áður en ég sofnaði kom svakalegur hávaði og rúmið gjörsamlega nötraði á meðan skjálftinn reið yfir. Við erum með ljósakrónu í loftinu og hún sveiflaðist til,“ segir Kristín, en hún segist ekki hafa orðið hrædd. „Ég er ekki hrædd við jarðskjálfta, en sonur minn kom mikið skelkaður inn í herbergi til okkar.“ Aðeins eru um 23 kílómetrar frá Krísuvíkurskóla til Grindavíkur ef ekið er um Krísuvíkurveg og er ljóst að skjálftinn hafi fundist vel í Grindavík eins og Kristín lýsir. Hún segir að einn viðskiptavina hennar í morgun hafi sagt sér að sonur hennar hefði dottið út úr rúminu í nótt þegar skjálftinn reið yfir. „Þó að við hér í Grindavík séum á svona virku svæði, þá finnst mér íbúarnir hér taka þessu með ró. Það eru margir sem búast við stóra skjálftanum, en það er engin hræðsla við hann hér, allavega ekki sem ég veit um,“ sagði Kristín í samtali við Víkurfréttir.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Þórður Sigurðsson og Kristín Sigurjónsdóttir í verslun sinni Aðalbraut í Grindavík.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Þórður Sigurðsson og Kristín Sigurjónsdóttir í verslun sinni Aðalbraut í Grindavík.