Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skjálftavirkni yrði ennþá ákafari og staðbundnari ef kvika leitar til yfirborðs
Frá íbúafundinum í Grindavík síðdegis. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 2. nóvember 2023 kl. 21:31

Skjálftavirkni yrði ennþá ákafari og staðbundnari ef kvika leitar til yfirborðs

Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur og deildarstjóri eldvirkni, jarðskjálfta og jarðhniks hjá Veðurstofu Íslands, sagði á íbúafundi í Grindavík síðdegis í dag að áframhaldandi kvikusöfnun vestan við Þorbjörn getur endað með eldgosi.

„Á meðan land rís þá vitum við að kvika er að safnast og meðan kvikan er að safnast þá er óvissuástand. Á meðan þetta er í gangi þá er skjálftavirkni og hún er lotubundin. Hún dettur stundum niður en kemur upp aftur. Það geta orðið skjálftar allt að stærð M5. Það má búast við að það verði skjálftavirkni áfram á þessu stóra svæði umhverfis innskotið og líka að hún sé að hoppa á milli staða,“ sagði Kristín á fundinum. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ef það verður mikil skjálftavirkni þá vitum við að það getur orðið hrun í fjöllum. Við getum líka búist við því að án þess að það komi til eldgoss að það verði sprungumyndanir, sig og gliðnanir. Það er líklegast að þetta gerist á svæðinu þar sem mestu átökin eru. Áframhaldandi kvikusöfnun getur endað með eldgosi og það er ein sviðsmyndin. Svo gæti landrisið hætt og við myndum túlka það þannig að kvikusöfnun væri hætt í bili og þá er óvissuástandinu aflétt. Þá má búast við að það dragi hratt úr skjálftavirkni,“ sagði Kristín.

Kristín segir að starfsmenn liggi yfir gögnum þessa dagana sem er verið að túlka til að átta sig á stöðunni. „Verkefnin á Veðurstofunni eru að fylgjast áfram grannt með breytingum og samtúlka gögn til að fá mynd af því sem er að gerast. Það er stöðugt endurmat.“

Það sem er að gerast við Þorbjörn er að vísindafólk er að sjá svokallaða syllu-myndun, sem er kvikuinnskot sem er að safnast lárétt eins og koddi á um fimm kílómetra dýpi samkvæmt nýjustu líkönum. Landris á svæðinu hefur verið mælt samfara því. Þessi kvikukoddi er lárétt innskot sem er tveggja kílómetra langt og fimm hundruð metra breitt á um fimm kílómetra dýpi.

„Mikilvægasta spurningin núna er hvort við séum að sjá vísbendingar um að kvika sér að færast nær yfirborði. Ef kvika er að færast nær yfirborði þá ætti hún að koma upp eins og gangur yfir þessari syllu og þá ættum við að mæla sig yfir þessum stað þar sem kvika væri að færast nær yfirborði,“ sagði Kristín. Hún segir marga GPS mæla á staðnum sem eiga að geta mælt það ef það verður sig. „Við höfum ekki séð það hingað til.“

Kristín segir að annað sem þarf að fylgjast með er skjálftavirknin og að meta dýpi á skjálftunum. Verið er að gera endurreikninga á þeim og fara vel yfir þá. Skjálftarnir eru núna aðallega á þessu fimm kílómetra dýpi en efstu skjálftarnir eru á eins og hálfs kílómetra dýpi.

„Stóra verkefnið er að halda áfram að fylgjast með þessum gögnum og fylgjast vel með því ef svona gangur fer að myndast og þá ætti skjálftavirkni að verða ennþá ákafari og staðbundnari“.

Núna er sérstakt viðbragð á Veðurstofu Íslands allan sólarhringinn alla vikuna. Þá eru haldnir reglulegir stöðufundir með vísindafólki, almannavörnum og fleiri hagsmunaaðilum.