Skírðu dóttur sína íslensku nafni
„Við vorum glöð að finna gististað því við komum svo seint í gærkvöldi,“ sögðu þau Uli og Ingrid. Þau höfðu tjaldað við Grindavíkurafleggjara frá Reykjanesbraut og voru með börnunum sínum tveim, Sólrúnu og Jakob. Þau hjón eru frá Sviss en ákváðu að skíra dóttur sína íslensku nafni því hún fæddist eftir ferðalag sem þau hjón fóru á Íslandi sumarið 2000. Þau hafa komið til Íslands nokkrum sinnum áður og segjast elska landið. „Við erum að prufa það núna í fyrsta skiptið að ferðast á hjólum með tvö börn um Ísland og ætlum að kíkja á Vestfirðina,“ sagði Uli. Þau segja að það skemmtilegasta við Ísland sé hversu fjölbreytilegt landið er alveg frá bláu vatni ( Blue Lagoon ) yfir í fossa og hálendi. Þau dvelja hérna í 5 vikur og eru spennt fyrir því að vita hvernig veðrið verður þessar vikur.