Skipuriti Reykjanesbæjar breytt: Sviðum fækkað, hagrætt og skilvirkni aukin
Aukafundur um málið í bæjarstjórn í vikunni. Samþykkt 3-2 á síðasta bæjarráðsfundi.
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti sl. fimmtudag tillögur ráðgjafa Capacent að nýju stjórnskipulagi Reykjanesbæjar sem taka á gildi 1. júní nk. Þrír fulltrúar meirihlutans greiddu atkvæði með breytingunum en tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem skipa minnihluta bæjarráðs greiddu atkvæði á móti. Þeir lögðu fram bókun þar sem þeir gagnrýna meirihlutann og sögðu ákvörðun um nýtt skipurit á sama fundi og tillagan er lögð fram dæmi um mistök, fljótfærni og klaufaskap.
Markmiðið með þessum breytingum er m.a. að fækka sviðum, hagræða og auka skilvirkni.
Aukafundur verður haldinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar á þriðjudagsmorgun 27. jan. Fundurinn verður lokaður áheyrendum.
Um er að ræða talsverðar breytingar á skipuriti bæjarins. Tvö af núverandi sviðum, þ.e. Íþrótta- og tómstundasvið og Menningarsvið, verða lögð niður sem sjálfstæð svið en verkefnin flutt annað. Fagsviðin verði þrjú og nefnist: Fræðuslusvið, velferðarsvið og umhverfissvið. Stoðsviðin nefnist stjórnsýslusvið og fjármálasvið.
Verkefni íþrótta- og tómstundasviðs munu að mestu leyti færast yfir á fræðslusvið, og með því nýtt stöðugildi íþrótta- og tómstundafulltrúa, utan þess að forvarnarmál færast yfir á Velferðarsvið (sem nú heitir Fjölskyldu og félagsmálasvið).
Verkefni Menningarsviðs munu færast á nýtt Stjórnsýslusvið, og með því nýtt starf menningarfulltrúa, ásamt ýmsum öðrum verkefnum sem í dag eru m.a. á Fjármálasviði. Má þar nefna þjónustuver, skjalamál, upplýsingtækni og mannauðsmál. Fjármálasviðið mun því geta einbeitt sér að fjármálum og verður eflt enn frekar. Auk þess munu markaðs- og kynningarmál, atvinnumál (önnur en þau sem tengjast höfninni beint) og ferðamál verða vistuð á Stjórnsýslusviði.
Önnur verkefni á Stjórnsýslusviði verða þau sem í dag eru á höndum bæjarritara eins og t.d. þjónusta við bæjarráð og bæjarstjórn, lögfræðimál, stjórnsýsluumbætur o.fl.
Reykjaneshöfn verður áfram rekin sem B-hluta stofnun en atvinnuþátturinn afmarkaður við hafntengda starfsemi. Önnur atvinnumál munu færast á stjórnsýslusviðið sbr. það sem fram kom hér að framan.
Hér að neðan má tillöguna að nýju skipuriti: