Skipulagsstofnun með rangar tölur um orkuþörf álversins
Rangar tölur um orkuþörf álvers í Helguvík eru í ákvörðun Skipulagsstofnunar um Suðvesturlínu. Stækka þarf tvær virkjanir og reisa sjö nýjar vegna álversins. Fréttablaðið greinir frá þessu á forsíðu blaðsins í dag.
Greinargerð með ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki þurfi að meta umhverfisáhrif Suðvesturlínu og annarra framkvæmda tengdum álveri í Helguvík sameiginlega byggist á röngum tölum um orkuþörf álversins. Þar segir að 360 þúsund tonna álver þurfi 435 megawött (MW) af orku. Hið rétta er að orkuþörfin er 625 MW. Hér skeikar 190 MW, eða 44 prósentum, en til samanburðar má nefna að Hverahlíðarvirkjun mun gefa 90 MW, eða aðeins 14 prósent af orkuþörf álversins, segir í frétt Fréttablaðsins
Rut Kristinsdóttir hjá Skipulagsstofnun segir við Fréttablaðið að það breyti ekki ákvörðun stofnunarinnar, hún hafi engan veginn staðið og fallið með orkuþörf álversins. Hún segir villuna vera í gögnum Landsnets, sem leggja mun línuna.
Sjá frétt Fréttablaðsins hér: http://vefblod.visir.is/index.php?netpaper=1166