Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skipulagsstofnun fellst á tillögu Landsnets að matsáætlun fyrir Suðvesturlínur
Föstudagur 27. mars 2009 kl. 12:42

Skipulagsstofnun fellst á tillögu Landsnets að matsáætlun fyrir Suðvesturlínur

Skipulagsstofnun hefur fallist á tillögu Landsnets að matsáætlun fyrir Suðvesturlínur með athugasemdum og jafnframt ákveðið að umhverfisáhrif verkefnisins skuli ekki metin með öðrum háspennulínum eða virkjunum sem tengjast álveri í Helguvík. Stefnt er að því að skila frummatsskýrslu vegna umhverfismatsins til Skipulagsstofnunar seinni partinn í apríl og kynning á henni hefjist í byrjun maímánaðar.


Tillaga Landsnets að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum Suðvesturlína, þ.e. háspennulína sem eiga að styrkja flutningskerfi raforku á Suðvesturlandi, barst Skipulagsstofnun 27. janúar 2009. Í framhaldinu var leitað eftir athugasemdum hjá lögbundnum umsagnaraðilum og tillagan kynnt með fréttatilkynningu og á heimasíðu Skipulagsstofnunar, ásamt ýmsum aðgerðum sem Landsnet stóð fyrir til að kynna tillöguna.


Helstu athugasemdir Skipulagsstofnunar
Skipulagsstofnun bárust alls á þriðja tug umsagna og athugasemda vegna tillögunnar. Stofnunin fellst á tillögu að matsáætlun með þeim viðbótum sem fram koma í svörum Landsnets við umsögnum og athugasemdum og eftirfarandi viðbótum:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
  • Skipulagsstofnun telur að í frummatsskýrslu þurfi að koma fram upplýsingar um hversu mikla raforku fyrirhugað er að framleiða í hinum mismunandi virkjunum/orkuverum, samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og hver sé þörf hugsanlegra kaupenda að orkunni, m.a. álvers í Helguvík, netþjónabús á Keflavíkurflugvelli og kísilmálmverksmiðju í Helguvík.

  • Skipulagsstofnun leggur áherslu á að í frummatsskýrslu komi samanburður á áhrifum af lagningu háspennulína sem loftlína eða sem jarðstrengs á mismunandi umhverfisþætti, auk fyrirætlana Landsnets um samanburð varðandi kostnaðar- og rekstrarþætti. Jafnframt telur stofnunin að fjalla þurfi nánar um samkomulag milli Hitaveitu Suðurnesja annars vegar og Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands hins vegar frá 2005 um línulagnir frá Reykjanesvirkjun að Sýrfelli og aðkomu Landsnets að því, m.a. hvort að einhverjar athuganir hafi farið fram sem útloki að jarðstrengur verði lagður á umræddum kafla.

  • Skýrt þarf að koma fram í frummatsskýrslunni hvaða leyfi framkvæmdaaðili þarf að sækja um til viðkomandi heilbrigðisnefnda, þ.á. m. að allir þættir fyrirhugaðra framkvæmda innan grunn- og brunnsvæða séu leyfisskyldir. Þá leggur skipulagsstofnun áherslu á að ítarlega verði fjallað um aðgerðir sem eiga að koma í veg fyrir mengun neysluvatns og viðbragðsáætlanir vegna hugsanlegra óhappa og að fram komi í frummatsskýrslu að ekki verði um framkvæmdir að ræða á grunnsvæðum að vetrarlagi, frá byrjun nóvember til loka mars.
  • Skipulagsstofnun bendir á að varðandi rannsóknarþáttinn þurfi að koma fram í frummatsskýrslu að höfundar sérfræðiskýrsla hafi lesið yfirkafla í frummatsskýrslunni sem byggja á sérfræðiskýrslum þeirra og fjalla um rannsóknir og athuganir þeirra. Jafnfram er bent á nauðsyn þess að birta í frummatsskýrslu yfirlitskort af öllu framkvæmdasvæðinu sem sýnir mörk friðlýstra svæða, svæða á náttúruminjaskrá og vatnsverndarsvæða.


Skipulagsstofnun fjallaði jafnframt um óskir Landverndar um að fram fari mat á umhverfiskostnaði vegna framkvæmdanna. Það er mat stofnunarinnar að alls óvíst sé hver ávinningur af slíku mati væri þó svo stofnunin telji að í sumum tilfellum eigi slíkar aðferðir rétt á sér við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Skipulagsstofnun telur hins vegar mikilvægt að við mat á umhverfisáhrifum háspennulínanna sé lögð áhersla á samanburð á áhrifum loftlína og jarðstrengja á umhverfisþætti eins og t.d. sjónræn áhrif, áhrif á landslag, jarðmyndanir, ferðamennsku og útivist og landnotkun og samfélag, auk hugsanlegra áhrifa á vatnsverndarsvæði, fugla, gróður og fornleifar.


Ekki í sameiginlegt umhverfismat
Í athugasemdum Landverndar og Náttúrverndarsamtaka Íslands var m.a. farið fram á að fjallað yrði með heildstæðum hætti um orkuflutninga og orkuöflun á umræddu landsvæði og þess farið á leit við Skipulagsstofnun að framkvæmdaraðilum yrði gert að meta sameiginlega allar matsskyldar framkvæmdir sem tengjast lagningu Suðvesturlína. Skipulagsstofnun úrskurðaði sérstaklega um þetta efni og komst að þeirri niðurstöðu að umhverfisáhrif Suðvesturlína skuli ekki metin með öðrum framkvæmdum sem tengjast álveri í Helguvík. Meginrökin eru þau að slík krafa stangist á við ákvæði stjórnsýslulaga um meðalhóf því slíkt fyrirkomulag yrði of íþyngjandi fyrir Landsnet vegna þess hversu mislangt á veg tengdar framkvæmdir séu komnar og ná megi fram á annan hátt þeim ávinningi sem samtímamat tengdra framkvæmda að öðru jöfnu hefði í för með sér. Kærufrestur vegna úrskurðarins er til 24. apríl 2009.


Varðandi umsögn Sveitarfélagsins Ölfuss, sem er einn leyfisveitenda fyrirhugaðra framkvæmda og leggst „gegn fyrirhugaðri framkvæmd, að svo stöddu að minnsta kosti,“ eins og segir í umsögninni, þá bendir Skipulagsstofnun á að breytingar á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss 2012-2014 hafi verið samþykktar af umhverfisráðherra í árslok 2008 og þær breytingar hafi m.a. tekið til legu þeirra háspennulína sem fjallað sé um í tillögu að matsáætlun Landsnets. Fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við staðfest aðalskipulag sveitarfélagsins og því er það niðurstaða stofnunarinnar að fallast á tillöguna, með þeim viðbótum sem þegar hefur verið lýst.


Næstu skref
„Það sem nú tekur við hjá okkur er að vinna úr þeim atriðum sem fram koma í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun og leggja lokahönd á frummatsskýrslu,“ segir Ólafur Árnason, verkefnisstjóri umhverfismatsins, aðspurður um næstu skref í matsferlinu.


Vinna við skýrsluna er vel á veg komin segir Ólafur og hann reiknar með að hægt verði að senda skýrsluna til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun seinni partinn í næsta mánuði. „Í framhaldi af því, væntanlega í byrjun maí, fer frummatsskýrslan svo í kynningarferli, bæði hjá lögbundnum umsagnaraðilum, hagsmunaðilum og almenningi.“


Samhliða umhverfismatinu fer fram áframhaldandi samráð og samstarf við þau sveitarfélög sem vinna nú að skipulagsmálum í tengslum við þetta verkefni, sem og aðra leyfisveitendur og hagsmunaaðila.