Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skipulagsbreytingar hjá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum
Miðvikudagur 19. mars 2008 kl. 17:43

Skipulagsbreytingar hjá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum

Skipulagsbreytingar verða gerðar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, þannig að yfirstjórn tollgæsluverkefna verði óskoruð á forræði fjármálaráðherra og yfirstjórn öryggisverkefna vegna flugverndar á Keflavíkurflugvelli verði á forræði samgönguráðherra. Löggæsla og landamæragæsla verði áfram á forræði dóms- og kirkjumálaráðherra. Engar uppsagnir eru fyrirhugaðar í tengslum við breytingarnar. 

Skipulagsbreytingarnar fela í sér að yfirstjórn löggæslu-, tollgæslu- og öryggisgæslumála á Keflavíkurflugvelli verður ekki öll í höndum lögreglustjórans á Suðurnesjum. Eftir breytingarnar verða tollgæsluverkefni á forræði fjármálaráðherra og öryggisgæsla á Keflavíkurflugvelli vegna flugverndar á forræði samgönguráðherra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Löggæsla og landamæragæsla verður áfram á forræði lögreglustjórans og dóms- og kirkjumálaráðherra.

Tilgangurinn er að tryggja skýra verkaskiptingu, valdsvið og ábyrgð við stjórnsýslulega framkvæmd á Keflavíkurflugvelli og Suðurnesjum. Rekstrargrundvöllur verður í samræmi við skilgreind verkefni hvers ráðuneytis. Ríkisframlag stendur undir löggæslu og nær allri tollgæslu, en tekjur flugvallarins standa undir öryggisgæslu.

Forræði á sviði stjórnsýslu og samfélagsþróun á Suðurnesjum verða að haldast í hendur til að tryggja hátt þjónustustig. Skipulagsbreytingarnar miða að því að styrkja daglega löggæslu í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum með því að einfalda rekstur lögreglustjóraembættisins. Jafnframt er þeim ætlað að styrkja tollgæslu og samhæfða framkvæmd flugverndarmála. Lögð er áhersla á, að ekki verði hróflað við hinu nána og góða faglega samstarfi við lög- og tollgæslu á svæðinu.

Nú fer í hönd undirbúningsvinna vegna breytinganna og er stefnt að því að nýtt skipulag taki gildi frá 1. júlí 2008. Engin röskun verður á starfsemi Keflavíkurflugvallar og löggæslu á Suðurnesjum og engar uppsagnir eru fyrirhugaðar í tengslum við breytingarnar.