Skipulagðir glæpahópar á Suðurnesjum
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, er í viðtali við Morgunblaðið í dag þar sem kemur fram að skipulögð glæpastarfsemi finnist á Suðurnesjum.
Greiningardeild ríkislögreglustjóra útbjó sérstakt hættumat fyrir Suðurnes, og kortlagði t.a.m. skipulagða glæpastarfsemi á svæðinu. Ráðist var í matið m.a. vegna nálægðarinnar við flugvöllinn. Í athugun er svo að ráðast í sérstakt mat á flugvellinum.
„Það eru hópar, bæði innlendir og erlendir, sem fylgst er vel með.“ Hún segir hættumat greiningardeildarinnar þjóna embættinu og er raunar meðmælt því að fleiri umdæmi verði greind með sambærilegum hætti. „Enda stoppar skipulögð glæpastarfsemi ekki við umdæmin.“
Flugvöllurinn gegnir hlutverki síu fyrir landið og fer mikil orka í að halda óæskilegum og eftirlýstum frá landinu. Ýmsar gagnrýnisraddir heyrðust þegar ákveðið var að skipta embættinu upp, og beindust einna helst að starfseminni í flugstöðinni. Þar hefur verið skilið á milli tollgæslu og löggæslu. Efasemdir voru um hvort hið góða samstarf sem var héldist og því jafnvel spáð að árangur myndi versna.
Sigríður Björk segir annað hafa komið á daginn. Þó svo ekki sé sama yfirstjórn yfir deildunum hafi samstarfið verið mjög gott og fjöldi mála upplýst. Þegar hefur meira verið tekið af fíkniefnum í Leifsstöð en allt árið í fyrra. Meðal annars rúm fimmtán kíló af amfetamíni og 1,4 kg af kókaíni. Þá hafa komið upp 23 fölsunarmál, þ.e. að menn villi á sér heimildir við komuna til landsins. Þau voru tuttugu á sama tíma í fyrra.
Viðtalið við Sigríði Björk er í Morgunblaðinu í dag.