Skipulag fyrir tölvuhýsingarmiðstöð tilbúið
Bæjaryfirvöld í Vogum hafa lokið vinnu við breytingar á deiliskipulagi á svæði undir 6000 fermetra tölvuhýsingarmiðstöð fyrirtækisins Midgard hf. Af hálfu sveitarfélagins er því ekkert að vanbúnaði að hefjast handa við framkvæmdir. Talsmenn fyrirtækisins segjast halda sínu striki þó tímaáætlanir hafi eitthvað raskast vegna efnahagsástandsins en verkefnið hefur verið í undirbúningi síðastliðin fjögur ár.
Sveitarfélagið Vogar og Midgard hf undirrituðu viljayfirlýsingu í maí á þessu ári vegna verkefnisins. Í skipulaginu, sem nú hefur verið klárað, voru byggingarreitir á þremur lóðum stækkaður á iðnaðarsvæði autan vegarins við innkomuna í bæinn en þar hyggst Midgard hf reisa 6000 fermetra þjónustubygginga í þremur áföngum. Fjárfesting vegna uppbyggingar gagnaversins í Vogum verður um 5 milljarðar króna gangi áætlanir eftir.
VFmynd/elg - Á þessu svæði er ráðgert að reisa nýja tölvuhýsingarmiðstöð.