Skiptu um hreyfil á þotu WestJet í Keflavík
Þota kanadíska flugfélagsins WestJet er ennþá á Keflavíkurflugvelli eftir að henni var lent þar með 258 manns um borð sl. laugardag. Annar hreyfill þotunnar, sem er Boeing 767, bilaði á flugi yfir Atlantshafi en þotan var á leið frá London í Englandi til Edmonton í Kanada.
Farþegar lýstu því sem svo að skrenging hafi orðið í hreyfli þotunnar og óskuðu flugmenn hennar í framhaldi eftir því að fá að lenda á Keflavíkurflugvelli.
Hér lenti þotan um miðjan dag sl. laugardag og var öllum farþegum komið á hótel í Keflavík og Reykjavík.
Sérfræðingar frá WestJet komu svo til landsins ásamt tveimur þotum til að sækja fólkið og koma því áfram til Kanada. Eftir skoðun á þotunni í Keflavík kom í ljós að hreyfillinn var það illa farinn að skipta þurfti um hann.
Búið er að skipta um hreyfilinn en vélin býður ennþá á Keflavíkurflugvelli.
Myndin er af þotunni þar sem hún stendur á austursvæði Keflavíkurflugvallar. VF-mynd: hilmarbragi