Skiptimiðar, strætóapp og ferðir frá flugstöðinni
Breytingar á almenningssamgöngum í RNB taka gildi 5. janúar.
„Maður hleypur ekki til og breytir strætókerfi. Þetta er dálítið eins og stórt olíuskip, þú verður að beygja hægt,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, um boðaðar breytingar í almenningssamgöngum á Suðurnesjum í janúar. „Við tengjum miðstöðina okkar við kerfi Strætó BS og þá á fólk að geta nýtt sér leiðakerfið. Síðast var gjaldtaka 2004 og þá voru tekjur af gjaldtöku helmingur af kostnaði. Af praktískum ástæðum förum við því ekki í það núna. En við erum að fara í heildarendurskoðun á kerfinu með breytingunni og munum þá skoða gjaldtökuna betur og beiðnir sem hafa borist. Íbúar á Ásbrú hafa t.d. beðið um að bílar keyri hjá Bónus við Fitjar en af öryggisástæðum er ekki vilji fyrir því að fara með fullan bíl af börnum út á Reykjanesbraut til þess að komast í eina verslun.“ Þá muni Reykjanesbær spara 8-9 milljónir á ári við að fækka svokölluðum pöntunarferðum.
Upplýsingarbæklingur í hús á milli jóla og nýárs
Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS, segir að stærsta breytingin muni fela í sér að ferðir á milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar muni hefjast og enda við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og BSÍ. Þó muni kvöld- og helgarferðir enda við skiptistöð Strætó BS í Firði, Hafnarfirði, þar sem leið 1 tekur við farþegum. „Fyrstu ferðir á morgnana, fyrir þá sem sækja vinnu eða skóla, verða með tveimur bílum frá flugstöðinni. Annar fer að Keili á Ásbrú og hinn ekur Hringbrautina og í gegnum Reykjanesbæ.“ Þá muni farþegar fá skiptimiða sem þeir geta nýtt á höfuðborgarsvæðinu. „Leiðakerfið er komið inn á vefsíðu Strætó BS og þjónustuverið þeirra mun taka á móti öllum ábendingum og koma þeim áleiðis. Við erum að prenta bæklinga sem verður dreift á öll heimili á Suðurnesjum á milli jóla og nýárs. Þar verða upplýsingar um leiðir, tímatöflur, gjald, strætóappið og annað. Í appinu verður hægt að sjá staðsetningu vagna og hægt verður að biðja um að fá sendar upplýsingar um breytingu á ferðum með sms. Við erum síðasti landsbyggðarhlutinn sem fer inn í þetta kerfi hjá Strætó BS og munum taka öllum ábendingum fagnandi,“ segir Berglind.