Skiptar skoðanir um öryggisgæslu og öryggisvistun í Reykjanesbæ
Félagsmálaráðuneytið hefur leitað til Reykjanesbæjar eftir samstarfi um byggingu og rekstur öryggisgæslu og öryggisvistunar í Reykjanesbæ sem lið í að vinna að framtíðarlausn fyrir einstaklinga sem þurfa nauðsynlega á öryggisgæslu og öryggisvistun að halda. Erindi ráðuneytisins var tekið fyrir í bæjarráði Reykjanesbæjar í síðustu viku og verður tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í dag, þriðjudag.
Annars vegar er um að ræða að finna hentugt húsnæði undir rekstur öryggisgæslu og öryggisvistunar til 24 mánaða fyrir tvo til þrjá einstaklinga sem þurfa á öryggisgæslu að halda og hins vegar útvegun lóðar fyrir byggingu húsnæðis fyrir sex til sjö einstaklinga sem þurfa á öryggisgæslu og öryggisvistun að halda.
Fyrir utan störf sem skapast á byggingatíma húsnæðis þá er reiknað með að a.m.k. 30 starfsmenn muni starfa við öryggisgæslu og vistun þegar starfsemin er komin í fullan gang, en í skammtímaúrræðinu er gert ráð fyrir störfum fyrir a.m.k. 15 – 20 starfsmenn.
í gögnum bæjarráðs segir að með þessu verkefni leggur félagsmálaráðuneytið áherslu á að styðja við atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, auka breidd í atvinnulífinu, skapa tækifæri til þróunar námstilboða í samstarfi við menntastofnanir á svæðinu og almenna styrkingu þekkingar og færni í velferðarþjónustu á Suðurnesjum.
Félagsmálaráðuneytið óskar eftir milligöngu Reykjanesbæjar um útvegun húsnæði til reksturs öryggisgæslu og öryggisvistunar til skemmri tíma annars vegar, sem farið getur af stað í haust, og hins vegar útvegun lóðar 1500 – 2000 m2 til byggingar húsnæðis sem lokið yrði árið 2023. Rekstur stofnunarinnar yrði á vegum ríkisins.
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum að taka þátt í verkefninu og felur bæjarstjóra að vinna áfram í málinu.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, ritar pistil á fésbókarsíðu sína um málið þar sem segir: „Núverandi fyrirkomulag er þannig að Reykjavíkurborg sinnir þessari þjónustu fyrir ríkið en ætlunin er að að ríkið taki alfarið yfir verkefnið og annist þessa þjónustu sjálft.
Öryggisvistun er ætluð andlega veiku fólki sem glímir við margþættan og flókinn vanda og getur verið sjálfu sér og öðrum hættulegt. Ef af verður mun ítrustu öryggiskrafna verða gætt af hálfu ríkisins og er nú verið að skoða hvort og þá hvar slíkt bráðabirgðahúsnæði finnst í Reykjanesbæ.
Ef ekki finnst hentugt húsnæði á hentugum stað kemur til greina að koma upp tímabundið forsmíðuðum, sérstaklega hönnuðum og innréttuðum einingum og eru nokkrir staðir til skoðunar.
Að sögn starfsmanna félagsmálaráðuneytisins er reynsla annarra landa sú að best sé að koma varanlega húsnæðinu sem fyrst fyrir á skipulagi í nýju hverfi þannig að allir sem hyggjast sækja um lóðir eða byggja í því hverfi viti fyrirfram af þessari starfsemi.
Starfsemin kallar á mörg störf og mikla þjónustu. Í tengslum við verkefnið er einnig verið að skoða hvort menntastofnanir hér geti tekið að sér að mennta ófaglært en sérhæft starfsfólk til starfa í slíkum úrræðum sem einnig er að finna t.d. á Akureyri,“ skrifar Kjartan Már.
Talsverðar umræður hafa verið um málið á samfélagsmiðlum og eru skiptar skoðanir. Meðal annars skrifa lögreglumenn á Suðurnesjum við færslur, bæði hjá bæjarstjóra og einnig í hópnum Reykjanesbær, gerum góðan bæ betri.
Einn lögreglumaður segir: „Þessu fylgir gríðarlegt ónæði og svona úrræði á ekki heima í íbúðabyggð. Ég vona svo sannarlega að menn kynni sér þetta vel áður en ákvörðun verður tekin.Það er væntanlega ekki að ástæðulausu að Reykjavíkurborg vill þetta ekki lengur“.
Annar segir: „Varanelg starfsemi sem veitir 20 til 30 manns vinnu er að mínu viti jákætt. Þetta gæti ekki komið á betri tíma og ég tel að þetta eigi vel heima í okkar samfélagi. Ekkert neikvætt við þetta og ég væri ekki hræddur við að hafa þetta í næsta húsi við mitt“.
Þriðji lögreglumaðurinn segir: „Mæli eindregið með því að allir aðilar, íbúar og fulltrúar Reykjanesbæjar, kynni sér málið til hlítar. Hendið endilega orðinu „öryggisvistun“ inn í Google og sjáið hvað kemur upp. Hlutirnir eru ekki huglægir í þessum efnum. Þó vissulega hallar á úrræðið. Það virðist fátt hafa staðist í málefnum tengdum þessu gagnvart íbúum í nágrenninu.“